Frelsi, fríðindi og framandi staðir!

miðvikudagur, september 29

GSM, besti vinur mannsins!

Já eftir svo ekki alltof góðan dag í vinnunni, er ekkert betra en að koma heim í faðm mannsins síns. Skil ekki afhverju maður er að leyfa fólki að ná til sín, þegar það eina sem skiptir máli eru skoðanir þeirra sem skipta manni máli. Ég þarf víst að fara að læra að fara meira eftir orðum mínum en ég geri, þ.e að ekki vera eins meðvitaður um álit annarra eins og ég geri í raun og veru. Þú einn veist hvað og hver þú ert og þeir sem elska þig hjálpa til að undirstrika það! Já, neikvæð orð annarra muna fljótt gleymast á lífsleiðinni, enda eru það ekki orðin sem maður vill minnast.

Ég var að lesa yfir bloggið mitt síðan í gær. Vá!!! Voðalega var þetta eitthvað djúpt, svona allavega fyrri parturinn.......hehe! En stundum þarf maður að vera djúpur og kannski ekki á þann hátt sem sumir eru að hugsa......
Vikan er allavega að fara að enda, á morgun bara fimmtudagur og svo næstum helgi. Thank God!!! Get svo svarið fyrir það, ég lifi fyrir helgarnar!
Dreif mig þó í ræktina mína í morgun, var sko ekki að koma mér á lappir, enda er búið að vera einhver leti í mér seinustu vikur. Furðulegt.....Allavega lufsaðist ég loks fram úr og keyrði af stað. Fannnst að ég væri nú sko alveg að mála mig sem hræsnara ef ég gæti nú ekki einu sinni gert þetta almennilega og tekið á honum stóra mínum og gert þetta eins og ætlað var! En áherslunar eru orðnar aðrar þessa vikuna. Ákvað að þar sem brjóstvöðvarnir væru nú að stækka svo mikið og upphandleggirnir að massast að eitthvað hafði mallinn gleymst og bakið líka.......Hmmmmmm, ekki gott mál. Annað hvort verður maður "muchos hottos" eða bara sleppir því.....Hégóminn aftur að tala. Hann á það til að skjótast inn svona á milli, hehe!
Jæja, mín bíður góða spóla, nammi og snakk (ha aðhald????), og svo náttlega hlýr maður líka :)
Ég ætla að gleyma annasömum og leiðinlegum degi og flýja raunveruleikann í smá stund, allavega fram að morgundeginum. Ekkert hressir mann upp eins og góð amerísk ræma, eða kvöldstund með góðum vinum. Í kvöld er það ræman......

Jæja kæru vinir. Bon nuit a tout le monde!

|

þriðjudagur, september 28

Hjónabönd, sjálfsfróun og vináttan....

Já, þetta er það sem efst á listanum í dag. Er sem sagt búinn að vera velt þessu geðveikt fyrir mér eitthvað. Já veit, furðuleg samsetning....en samt.....
OK. Hjónabönd! Margt sem er búið að vera að gerast í þeim málum, og er ég kannski ekki að tala um mitt eigið. Manni finnst það svo furðulegt að hjónabönd eiga sér stað. Á sama tíma finnst manni það jafn skrítið að þau eiga það til að enda rétt sé svona. Hef svo sem ekki beint myndað mikla skoðun á þessu máli, nema bara núna rétt nýlega. Þar sem ég hef ekki fengið að fylgjast svo grant með skilnaði áður fyrr, fyrr en rétt núna, þá finnst mér þetta hið merkilegasta mál. Allra helst finnst mér þetta voðalega leitt alltsaman, þ.e þetta hugtak skilnaður og hvað því fylgir. Særindi ofan á særindi, samviskubit, einmanaleiki og svo náttlega bara þessi almenna sorg. Fyrir okkur hin sem fylgjumst með er þetta skrítið......Við samgleðjumst vinum okkar, á sama hátt og við finnum fyrir söknuði til þess sem ekki er lengur. Við reynum að styðja við bakið á þeim sem eiga í hlut en erum oft ekki alltaf sammála. En hvað getur maður gert annað en að vera til staðar, það er ekki okkar hlut að dæma, heldur einungis að hlusta og leiðbeina. Ég get ekki ímyndað mér þær raunir sem fólk þarf að ganga í gegnum, get í raun ekki sett mig í þau spor, þar sem ég hef ekki lent í slíku. En eitt get staðhæft og alhæft. Að öll höfum við fundið fyrir sömu tilfinnningum, kannski ekki tengt sama efnis, en tilfinningarnar eru þær sömu. Einsemd, sorg, samviskubit, reiði.......allt eru þetta tilfinningar, það tengir okkur saman.

En hvað er hjónaband??? Hvað er það sem gerir gott hjónaband, hvað er það sem gerir slæmt hjónaband. Ég held að þegar allt kemur til alls, þá er það einstaklingurinn sem skiptir máli. Tveir traustir einstaklingar byggja betur upp gott bandalag, heldur en tveir ótraustir. Byssur eru einskins nýttar, ef engin er til að skjóta úr þeim.......

Í öllum þessum djúpu hugsunum fór ég að leiða hugann að sjálfsfróun. Þetta kom kannski allra helst vegna samstarfskonu minni, þar sem hún trúir ekki á að fara með bílinn í "self service". Ég fór að pæla intensiv mikið í þessu. Er sjálfsfróun ógeðsleg? Afhverju fróum við okkur??? Er betra að láta einhvern annan fróa sér??? Ég er alveg á þeirri skoðun að þeir sem ekki snerta sig einstaka sinnum ættu náttlega bara deyja og éta skít!!! Halló? Ef maður fær ekki gæðavöruna þá fer maður í Bónus! Sjálfsfróun er oft betra en ekkert. Sjálfsfróun er oft betra en hitt!
Hmmmm......en ég geri mér grein fyrir að sumir eru mér ekki sammála........Allir að kíkja á bloggið hennar MS. Lee, hérna til hægri, hún hefur þónokkra skoðun á þessu máli!

Nú í kjölfari á þessari miklu sjálfskoðun og sjálfsfróun, þá endaði ég í því sem kannski skiptir meira máli en "all of this above". En einmitt á þessu efni var ég alveg blank......Eins og með ástina, þá held ég að maður getur útskýrt þetta hugtak með orðum. Maður treystir á tilfinninguna og leyfir því að detta rétta staði................

Og nú er ég orðlaus......



|

laugardagur, september 25

Falsettan var góð en röddin ennþá sofandi...

Laugardagur og ég að vinna. Surprise!!! Söng mig hásann í morgun, og leið eins og fölskum ketti. Þetta var ekki að gera sig, enda raddböndin eitthvað hálf sofandi ennþá. Dagurinn hérna aftur á móti byrjaði ekki vel. Dónalegir kúnnar virðast vera fastur liður hér á laugardögum! Þoli ekki fólk!!! Er alveg búinn að missa þjónustulundina, hvað þá þolinmæðina.....

Svo á eftir ætlar hann Eddi Peddi að koma til okkar og vera hjá okkur í dag, og kannski í nótt líka. Þannig að ég þarf að fara grafa fram pabbagenin. Hann er svo góður, þessi elska að maður er ekki í vandræðum með hann :) Náttlega orðinn svaka stór, algjör grallari, hehe! En mamma hans spurði hann hvort honum langaði ekki að gista hjá Ingó og Nalla frænda. Hann var sko meira en til í það!
Mér datt reyndar í hug að skella mér í ræktina á morgun, þar sem letin er búin að taka yfirhöndina þessa vikuna sem er að líða. Það ætti ekki að vera mikið mál þar sem knúsarnir mínir tveir geta hangið tímum saman upp í rúmi og spilað tölvuspil :) Enda Nalli töluvert þolinmóðari í þeim málum en ég, hehe!

En eitthvað er að gerast hér í þessum banka sko. Bæði Magnea og Andri eru á kafi í einhverjum kínverjum sem eru að meika það hérna á Íslandi. Allt í einu leið mér eins og á markaði í miðju Shanghai......Ekki það að ég hafi neina viðmiðun, hef aldrei komið til Asíu, nema þegar ég fæddist, hahahahaha! I suck! :( En furðulegt hvað þessir kínverjar eru spes....Koma bara í bankann og ætla að taka út 600þús á kreditkortinu sínu og skilja svo ekkert í því afhverju það kemur synjun......Hmmmmmm, á endanum ákvaðu þeir að skipta evrum yfir í íslenskar 6300 evrur......sem geri náttlega eitthvað um 560.000kr!!! Vorum að pæla í því hvað þeir gæt keypt margar filmur fyrir þennan pening. Það má sko ekki missa af neinu. Þetta eru minningar!!! :)

Jæja, best að hætta þessari steypu og fara að gera sig kláran til að fara......

|

föstudagur, september 24

Helgin komin og Ingó bara þreyttur....

Jæja góðir hálsar! Kominn heim, vinnuvikan búin og ég bara alveg búinn á því. Annar vinnudagur bíður mín á morgun en fyrir það söngtími kl hálf 10.
Ætlaði nú bara að að tékka mig inn til þess að uppfæra "Hottie vikunnar". En ég var nú næstum búinn að gleyma þessum snilldarlið hjá mér, hehe! Anyways!!!

Þessi kauði á svo sannarlega skilið að vera hottie vikunnar. Fyrir utan hvað hann er með GEÐVEIKAN kropp, þá er hann hinn ágætis leikari og með mest sætu spékoppa sem fyrirfinnast. Vonandi eru þið mér sammála.
Njótið!!!

|

miðvikudagur, september 22

Los planos numeros unos!

Hmmm, halelúja helgi! Get nú ekki sagt meir sko. Höfuðverkur.is! Gærdagurin var svo ekki eins slæmur og við mátti búast. Kvöldið hérna í KB vara bara hið ágætasta og ég náði að klára fullt af verkefnum sem eftir var. Svo hið besta mál. Var reyndar ekki búinn fyrr en rúmlega 10 svo ég bjallaði í hösslerinn til að tékka á honum. Hann var náttlega heima að láta sér "leiðast". Nalli var í vinnu svo að heim nennti ég ekki. Stutta stoppið hjá Fjalari endaði upp í 3 tíma stopp, hehe. Mjög næs og notalegt, takk fyrir það!

Ræktin í morgun flaug síðan út í buskann fyrir nánari kynni við rúmið mitt...Ekki gott!!! Og svo kominn aftur í höllina. Dagurinn rétt byrjaður og langur vinnudagur/kvöld eftir. Eitthvað er eftir að klára hérna og svo þarf ég víst að bíða eftir að að einhverjir viðgerðamenn klári að gera við eitthvað hérna....og ég er einn af fáum sem eru með lyklavöld hérna og.........

Hmmmmmm.........já alveg rétt, planið sko! Hehe! Var einmitt að segja Thelmu vinkonu frá því :) Ætla samt ekki að fara að gefa það upp hérna á www, það er eitthvað svo þannig að að uppgefið plan er oft glatað plan.....hehe. En þið sem viljið vita, komið á fund mín og ég skal kjafta frá öllu.


|

þriðjudagur, september 21

Kroppurinn á góðri leið og nýtt plan í bígerð!

Jæja góðir hálsar. Ætlaði bara að slengja inn smá slúðri hérna. Ekkert svosem merkilegt, en alltaf má svosem krydda raunveruleikann til að hægt sé að gera góða sögu.....
Nú, nema hvað. Var litið inn á síðuna hans til að fá smá uppdate á actioninu og var mér ekkert smá brugðið! Gæjinn bara búinn að fara til læknis og fékk þá þessa miklu uppljómun. Halelúja bróðir, velkominn í hópinn! Sem sagt kauði ætlar að fara að boosta sig eitthvað upp fá sér smá vöðva.......Maður getur aldrei of sjaldan á sig vöðvum bætt! Anyways, það sem náttlega gerði daginn minn var þessi litla petite lína í blogginu, sem er samt svo sönn......Um betra form, já kíkið á þetta sjálf og þið sjáið hvað ég er að meina, hér er hégóminn að tala og hann hefur ekki tíma fyrir frekari útskýringar! *hnuss*

En svona án gríns, þá er þetta með kroppatemjunina að ganga svaka vel. Allur að koma til , eða það segja þessir sem eru í kringum mig (þessir tveir).
En svo er komið nýtt plan.......er ekki viss um hvort ég að vera að gaspra því eitthvað út, allaveg áður en það er komin almennileg mynd á það........hmmmmm. En allavega eru það smá framtíðarplön í gangi....ekkert drama sko, en samt .......

OK. Klukkan farin að ganga 9 og ég er ennþá í KB. Hehe, smjaður.is hérna sko.....Neinei, smá eftirvinna í gangi sko, ekkert til að kippa sig yfir. Karlinn minn sæti er að vinna líka, þannig að íbúðin er köld og tóm heima. Það er magir tími framundan og við karlar að tryggja okkur mat á borðið fyrir þann tíma, hehe! En málið er að það að mín trú er sú að maður uppsker eins og maður sáir......Og ég er að sá helvíti mikið takk fyrir, þannig að það er best að uppskeran fari að sýna sig sko!!!

Jæja, ætla að hætta þessu væli og fara að ljúka því sem þarf að gera. Ætlaði bara að enda bloggið með stæl, ekki í lausu lofti.

Ciao bella!

|

laugardagur, september 18

Fjandinn sjálfur og allt hitt!

Góðan dag! Bara kominn í........já þið giskuð á rétt: KB banka í Kringlunni :)
Sjaldan að maður kíki í vinnuna svona um helgar! Eða allar helgar, réttara sagt.......
Dagurinn í gær endaði svo með að vera hin frábærasti dagur, takk fyrir!
Dreif mig heim eftir vinnu til að poppa upp rauðvíninu og nudda kjúllann. Sá gamli var ennþá að vinna og ég hafði tíma til aflögu til að slappa af og malla saman eitthvað gúmmilaði. Svo kom Hössler.is, til að spise með okkur. Sá gaur ætlaði reyndar í ammæli, en beilaði á því á seinustu stundu (vegna bakverkja), en átti svo líka pantað stefnumót í þokkabót seinna um kvöldið. En ég og minn erum með sjarma á við 10 og tókst þar að leiðandi að halda í kauða fram á rauða nótt, hehe! Öllu var hent til hliðar fyrir góðan mat, gott kaffi og djúpar umræður um hið kosmiska og ójarðneska :) Sem sagt dagurinn og kvöldið reyndist vera hið besta í langan tíma!

Ég vaknaði svo reyndar upp í morgun og uppgötvaði að ég var búinn að stúta heilli rauðvínsflösku í gær (með smá hjálp), ekki það að sé mikið magn miðað við mig, en kannski bara tók ég aldrei eftir því þegar hún kláraðist.........Eru einhver alkohólísk gen í gangi hérna eða??? Nei, nei.....bara að hætti Sex and the City!!! :)
Dagurinn í dag er svo enn óráðinn og býður upp marga skemmtilega möguleika, en ég ætla fyrst að far heim eftir vinnu og eiga smá quality tíma með mér einum og nýja tölvuleiknum mínum sem bíður mín heima :) Singles! Sims bíða til betra tíma, eða þangað til á morgun :)
En Singles er svoldið meira svæsnari útgáfa af Sims, þar sem margt annað gerist, meira en það venjulega, kannski soldið meira krassandi,hehe!
Jæja, farinn að hætta þessu í bili og reyna að einbeita mér að viðskiptavinunum........

Ciao í bili!!!

|

föstudagur, september 17

Föstudagurinn langi.....Ó já!

Úúúúúúú, bara að koma helgi sko. Get ekki beðið eftir að þessi dagur taki á enda, þó svo að hann hafi í raun ekki byrjað ennþá. En ég er á fyrri vakt þessa vikuna, þannig að ég losna snemma héðann í dag :) Ætla að skjótast heim og elda eitthvað gúmmilaði handa sæta manninum mínu, sem er by the way bestastur í öllum heiminum! Og vitið þið hvað þessi elska gerði í gær??? Eftir ekki svo slæman kvöldmat afhenti hann mér litla tösku sem hann sagði að ég mætti eiga (þó svo að ég ætti hana fyrir). Og inn í henni voru mínir heittelskuðu vinir, já engin aðrir en SIMS. Jújú, hann keypti handa mér Sims 2, en ég er búinn að bíða eftir þeim lengi, lengi. Ef þið lítið hingað til hægri sjáið þið link inn þá þessar elskur. Er ég ekki mikill tölvukarl, en í þessum leik get ég sko alveg gleymt mér.

Sumir eru á fullu að blogga um svín......eða var það beljur.....man ekki alveg, en eitthvað sveitadýr var það allavega. Það er spurning að fara að bjalla í kauða og fá einhverjar djúsí upplýsingar......eitthvað er á seyði! Maður fer ekki að blanda svínum og beljum inn í bloggið sitt upp úr þurru.....ekki nema maður sé sveitalubbi. Og Fjalar er EKKI sveitalubbi......þó svo að hann geti verið lubbi stundum, hehehehehehehehe.....I´m so funny :)

Jæja, ætla að hætta í bili og reyna að koma einhverju í gang hérna. Láta daginn líða hraðar.
En svona til að betrumbæta síðuna mína er ég kominn með nýjan lið hérna til hliðar. En sá liður á að lyfta okkur hommunum aðeins upp (þar sem 90% sem lesa þetta er hommar). Þessi liður heitir Hottie vikunnar, en þessa hugmynd fékk frá henni Lindu, eða Ms Lee, eins hún heitir hérna á síðunni. Smá hermikráka í gangi sko, takk Linda!!! *koss*

|

miðvikudagur, september 15

Fiskur í kvöldmatinn og amma Tót 95 ára á morgun!

Já haldiði að það sé! Ég sit hérna alveg að deyja úr hungri. Gæti étið hest sko! En ég heyrði að það væri að malla einhvern svaka góðan pastarétt inn í eldhúsi, get ekki beðið.
Svo á eftir kem ég við í fiskbúðinni til að hafa eitthvað nammigottí matinn í kvöld *slef*.

Slapp snemma héðan úr bankanum í gær og dreif mig í ræktina. Það sem mætti mér þegar ég kom inn í tækjasal var ekki fögur sjón. Menntskælingar!!! Gelgjur af öllum stærðum og gerðum.......Mér hryllti við tilhugsunina! Ég tók í mig kjark og dreif mig á hlaupbrettið til að hita upp. Út um allt sá ég þessa pjúní litlu stráka og feitu jussugellur að reyna að hömpast eitthvað á tækjunum með tyggjóið lafandi úr munnvikunum. Þetta var náttlega ekki í lagi! Ég ákvað að vera cool á því og drífa prógrammið mitt af og fara svo heim. Svo varð af og á klukkutíma tókst mér að klára það sem ég ætlaði mér að gera og teygja. *púff*
Ég vona bara að þessi litlu dýr fara ekki að leggja leiðir sínar í ræktina mína mikið oftar!

Vikan bara hálfnuð og ég tími ekkert að líða......Það fer að nálgast vetur og verð ég að viðurkenna að mig er farið að langa svoldið í snjó og frost, það er eitthvað svo kósí við það :)
Spurning, smurning........

|

þriðjudagur, september 14

Þriðjudagur eftir mánudegi!

Vinnudagur nr 2. Mér finnst eins og það það sé heilt ár eftir af vikunni.......Ekkert að gera í vinnunni, ég er búinn að dubba upp kynningarbásanna okkar hérna og er að velta því fyrir mér hvað ég á af mér að gera næst! Hmmmm........
Get samt ekki beðið þangað til dagurinn er búinn og ég kemst héðan út! Haldið verður í ræktina til að viðhalda þessum litlu vöðvum sem loks eru farnir að myndast. Það væri nú grátlegt ef þeir mar tæki upp á því að fara að glata þeim einn tveir og þrír.
En í gær var ég rosa duglegur :) Dreif mig strax eftir vinnu í sund. Og ég synti!!! Voru reyndar ekki meira en 200m, en samt. Eftir það kafaði ég 100m og henti mér síðan í pottinn. Mmmmmm.....þvílíkur unaður. Furðulegt hvað það er uppfrískandi að skella sér svona í sund.

Jæja kominn úr kaffi! Og dagurinn bara að verða búinn, spennó kvennó!!! Blogga meira á eftir þegar ég kem heim. Komið gott í bili.
Ciao!


|

laugardagur, september 11

11. sept. Dagurinn sem breytti heiminum!

Já í dag er þessi merkisdagur. Í auga sumra er þetta sorgardagur, dagur slæmra minninga, dagurinn sem breytti tilveru þeirra sem misstu ástvin, dagurinn sem breytti tilveru okkar allra og öryggistilfinningu okkar í heiminun. Við minnumst þessar sorgaratburðar með lotningu og auðmýkt, fyrir hönd þeirra sem létu lífið, fyrir hönd þeirra sem lifðu af, fyrir hönd okkar allra sem horfðum upp á þetta hryllilega atvik og grétum..........
Vaknaði upp snemma í morgun til að mæta gallvaskur í söng hjá Sigga. Var ekki alltof confident þegar ég lagði af stað, en kvíðinn leið hjá. Er ekki búinn að viðhalda röddinni í allt sumar, og tala ekki um allar reykingarnar!!! En þetta fór vel eins og við mátti búast. Það var bara gaman að hitta Sigga aftur, við höfðum mikið um að að spjalla, en söngurinn gekk bara rosa vel. Röddin öll að koma fram og ekki í eins slæmu ástandi eins og ég hélt. Þó svo að ég hafi ekki skráð mig í skólann aftur vildi Siggi endilega að ég væri í einkatímum hjá honum. Hann hafði valið nokkra af sínum bestu nemendum, þar á meðal mig til að kenna í einkatímum og vonaðist þannig til að koma okkur betur á framfæri og jafnvel fljótar í gegnum námið með þessum hætti. Siggi er perla!!!
Núna sit ég allavega hér í hvelfingunni, að mygla! Kominn aftur hingað, enda ekki að spyrja að því, Ingó á ekkert líf.......Allavega ekkert uppbyggilegt eða exciting! Í gær komu exdrama.is og birdlady í heimsókn. Alltaf gott að fá þessar elskur í heimsókn og missa sig aðeins í gleðinni og geðveikinni :) Aðhaldinu var semsagt slegið upp í kæruleysi og "Deep n Delicious" tekin upp! En hápunktur vikunnar, eða jafnvel mánaðarinns var þegar Fjalar tók eftir "nýju" upphandleggsvöðvunum mínum, sem ég er búinn að vera að púla svo mikið fyrir :) Líklegast borgar sig að vera duglegur í ræktinni og pumpa......... Er jafnvel að velta því fyrir mér að skella mér í sund á eftir þegar ég er búinn að vinna. Vinna upp letina frá seinustu viku!
Nýjar fréttir: Haldiði ekki að elskan mín kæra sé byrjaður að blogga aftur. Spurning bara hvað hann heldur sér lengi við efnið og lufsist til að drita einhverju niður einstaka sinnum.
Nú svo er það Jómbi líka, sem er eitthvað kominn á stjá aftur, en það er eins og við höfum svo oft sagt að hann þurfi að komast til útlanda til að fara segja eitthvað frá sjálfum sér á ný.
Jæja, ætla að hætta núna í bili. Fólk farið að streyma inn og ég þarf að setja upp sparibrosið.
Tata!!!

|

miðvikudagur, september 8

Langur vinnudagur, nammi og DVD og ræktin í fyrramálið!

Jamm og jæja. Hlunkaðist hingað inn um hurðina eftir að ég var búinn að sitja með eyrað fast við símtólið seinustu 3 klst í KB. Ekki er að spyrja að því að maður reynir að næla sér í aukapening hérna á þessu heimili. Allt er þetta vinna og vinna þarf maður að gera til að eiga fyrir matnum á borðið eða öllu heldur namminu. Talandi um nammi, ég er sem sagt búinn að klúðra helvítis aðhaldinu gjörsamlega, eða réttara sagt er að fara að klúðra því, þar sem að nammið er enn í pokanum hér við hliðina á mér. Spurning kannski að vera skynsamur og bíða með það þangað til um helgina.......Glætan!!! Hér verður sko sukkað!
Mesta sjokkið fékk ég þó þegar ég var að hringja í einn ágætan mann áðan til að fá hann í viðskipti hjá mér og var mér litið á skýrsluna hans. Hann var flugmaður og í skýrlunni stóð að mánaðar launin hans voru: 1 miljón krónur!!! (væntanlega fyrir skatt)
Það helltist yfir mig raunveruleikinn og ég uppgötvaði að vildi maður verða eins og þessi maður þýddi ekkert að hanga bara á rassinum og gera ekki neitt. Svo að plottið þykknar enn meira, og undirritaður er kominn með heljarinnar plan í gang.....sem hann ætlar svosem ekki að fara að tjá sig eitthvað um nánar um. You just wait and see!

Á morgun er fimmtudagur og á hinn er það föstudagur. Svo bara komin helgi. Svo byrjar bara ný vika og......já same old, same old. Get ég verið meira bitur í líf mitt akkurat núna???
Hehe!!! Jæja, ætla hætta þessari sjálfsvorkunsemi og fara að gera eitthvað að gagni, þ.e horfa á DVD og háma í mig nammi og verða feitur! Hananú!!!

Bon nuit a tout le monde!

|

Betra???

Jæja, eitthvað hefur þetta skánað hérna hjá mér á "Nýjum tímum". Ég er samt eitthvað ósáttur við letrið á linkunum og litinn líka, en ég virðist ekki getað breytt þessu. Skil mig ekki alveg á þessu html máli, enda er ég ekki beint neinn tölvugúru, þótt svo að ég sé klár......

En í dag er þriðjudagur, eða kannski meira kominn miðvikudagur, ég held að klukkan sé skriðin yfir 12. Svo það er að koma háttatími fyrir fríska stráka eins og mig (yeh right!), eða kannski er þetta líka bara ellin að segja til sín (hvaða elli???) Ég vaknaði allavega eitthvað hvekktur í morgun, dreymdi þennan stórfurðulega draum sem ég er búinn að vera að reyna ryfja upp fyrir mér í allan dag, en get ekki sett fingurinn alveg á hann. Allavega gerði þessi draumur það að verkum að ég var hálf lítill í mér í dag.....paranójan að ná taki á manni, hehe!

*geisp* Jæja, rúmið bíður mín og kannski góð bók líka.............*hrotur*

|

sunnudagur, september 5

Og hann er á lífi!

Halelúja! Er gjörsamlega búinn að gleyma mér hérna. Nú er nánast liðin viak síðan ég henti einhverju inn hingað seinast, og það gengur náttlega ekki. Like usually ekki mikið að segja frá...
Var í gær í smá KB gleði, sem var mjög skemmtilega að vana....og blaut! Já það þarf sko ekki að kaupa það dýrt af samtarfsmönnum mínum að fá sér smá í glas, hehe. En undirritaður komst ekki almennilega í gírinn sko og að lokum hætti hann að einu sinni að nenna að reyna fá sér í glas. Það er eitthvað við léttvín og bjór sem er ekki að gera sig........

Svo nú sit ég hér heima einn fyrir framan tölvuna, ekki þunnur, ekki einu sinni þreyttur og er að pæla hvað ég á að gera af mér......Nalli er farinn í vinnu og ég er eitthvað eirðarlaus. Planið var þó að skella sér í ræktina og svitna smá. Enda er ekki hægt að slepp úr degi.....þó svo að aðhaldið hafi alveg farið úr skorðum. Aðhald spyrji þið!!! Ja kannski ekki í þeirri merkingu eins og þið haldið, en meira svona tilraun til að fara að lifa hollara lífi.
Þennann mánuð ætlaði ég að leggja frá mér allt sem heitir alkohól, ala ekki um bjórinn, hætta ÖLLUM reykingum og hafa bara nammidag einu sinni í viku, þ.e. ekkert snakk og ekkert KFC *snökkt* Og það gekk ágætlega þangað til í gær.......það var mikið drukkið (ekki nóg samt) og mikð reykt. Ój bara! Líður eins og reykt skinka, ble!!! Svo til að friða samviskuna þá ætla ég að fara að púla smá. En fyrir ykkur sem eru að blöskrast á þessu heilsutali. Takmarki mínu skal verða náð! Ég mun geta gengið niður Laugarveginn, ber að ofan og stoltur í maí á næasta ári........I hope!

OK. Klukkutími liðinn og ég ekki ennþá farinn út.......hmmmmmmm. Er ég að beila á þessu eða?????

|