Frelsi, fríðindi og framandi staðir!

mánudagur, maí 28

Dagdraumar í 30 stiga hita

Nú er bara vika þangað til við fáum íbúðina okkar afhenda. Núþegar er ég farinn að ímynda mér hvernig ég ætla að breyta baðherberginu, hvað það er sem mig langar að kaupa næst og hvenær nýji bíllinn mun standa í bílgeymslunni! Já merkilegt hve fljótt maður gleymir sér í dagdraumum sínum og öll tilfinning fyrir veruleikanum hverfur........Peningar einhvern veginn virðast ekki skipta máli og allt einu ertu ósigrandi. Verst að reikningarnir halda áfram að detta inn um lúguna og VISA:ð skuldfærist, annars væri þetta fullkomið líf!

Á morgun fer ég svo til Flórída. Vinnuferð enn og aftur og ég bind allar mínar vonir við 30 stiga hitann og sólina sem mun endurnæra mig á meðan ég ligg hálf nakinn við sundlaugarkantinn á hótelinu. Planið er að koma heim skaðbrenndur og stökkur eins nýsteikt beikon. Það eina sem mun fara í ferðatöskuna er sundskýlan og sólarolían. Verst bara hvað ég er spéhræddur....LOL!

Í dag var góður dagur. Vaknaði seint við sólina sem skein inn um gluggan og truflaði svefn minn. Ég bölvaði henni í hljóði en nennti ekki að hafa fyrir því snúa mér í hina áttina þar sem ég var fastur í fangi kærastans :) Merkilegt hve lélegt veðrið er hérna á Íslandi! Á veturna er stórhríð með regni og haglélum sem dynur á gluggann hjá manni og heldur fyrir manni vöku og sumrin dagsljós allan sólarhringinn!!! Já eitthvað langaði mig frekar að vera eftir í Köben í gærkveldi, þar var það allavega dimmt.
Ég lánaði svo tveimur vinum mínum dómgreind. Vonandi að hún hafi verið góð og komið þeim af einhverjum notum. Það er svosem ekki oft sem það sem kemur upp úr mér meiki sens, en ég á mínar stundir. Þessar dómgreindir fæ ég svo endurgreiddar með vöxtum!

Svo í vikunni ætlum við að fara að versla. Kaupa þarf þvottavél og þurrkara, heimasíma og nettengingu, bókaskápa og hillur, málningu.......Já góðir tímar framundan........dýrir tímar framundan. Íbúðin komin, nýji bíllinn í bílageymsluna, 30 stiga hiti og sól og reikningarnir týndir..........já best að halda sig við dagdraumana!

|

mánudagur, maí 21

Ungfrú Ísland fer í Hámíluklúbbinn!

Sit hérna upp í holunni minni með kvef í hálsinum og stíflaðan nebba að vorkenna sjálfum mér. Í öllu dramanum varð mér litð á sjónvarpsskjáinn þar sem ágætis þáttur var á dagskrá Skjás 1. Heill þáttur, nú eða þáttaséría tileinkaður keppendum fegurðarsamkeppni Íslands.
Ég gat ekki annað en horft á með öðru auganu með glott á vörum mínum.....hálfgerður kjánahrollur fór um mig og ég eiginlega vorkenndi þessum blessaðins stúlkum uppstiltar í bleikum bolum með sauðfésvipinn í framan........
Finnst það enn jafn kjánalegt hvernig í raun og veru er hægt að keppa um útlit og ytri þokka þegar smekkur hvers og eins er klárlega mismunandi. Enn kjánalegra finnst mér hvernig fólki geti í raun og veru langað til að taka þátt í þessum keppnum og þar með að leyfa fólki níðast á sjálfsáliti manns, nú svo fremur sem þú vinnir. Stattu svona, borðaðu þetta, vertu í þessu......hmmm, ætli ég sé ekki of mikil frekja eða sjálfumglaður til að geta leyft einum eða neinum að skipa mér fyrir á þennan hátt???
Að láta útlitið og fas skipta sig svona miklu máli............
Einnig gat ég ekki annað en færst út í þá þanka og líta á þessar stúlkur, sem án efa eru bæði klárar og hæfileikaríkar, með drauma og metnað, sem hálf vitlausar. Að þær höfðu ekki annað til brunns að bera nema að vera sætar í háum hælum og bikíni......Að verða Ungfrú Ísland er kannski ekki svo slæmt.....en hvað er það í raun og veru sem þú hefur gert til að verðskulda þann tiltil.....nú ef titil skal kalla.......

Var einnig litið inn á heimasíðu stéttarinnar þar sem góður pistill var nýlega innsendur. Farið var yfir hugmyndir um heiti starfsins og hvort það ætti að vera kvenkyns eða karlkyns....nú eða jafnvel hvorukyn. Flest okkar sem vinnum við þetta ágætis starf er alveg sama. Það er ekki heitið sem skilgreinir okkur sem stétt heldur starfið sjálft. Þó svo að starf skilgreini aldrei einstakling sem persónu, þá verður að viðurkennast að flugfólk almennt er þjóðarflokkur útaf fyrir sig. Við erum bæði lífleg og fjörug, ótrúlega vinnusöm og tilbúin að redda hlutunum hvenær sem er. Við erum fólk breytinga og skipuleggjum aldrei langt fram í tímann. Á sama tíma sem við erum opin og hress, þá geymum við alltaf okkar innri mann fyrir þennan sérstaka sem á sér stað í hjarta okkar. Létt hjal við ókunnuga er okkur eðlislægt og taka við kvörtunum og sýna skilning þó svo að viðkomandi fari með rangt mál, er eins og að drekka vatn. Flugfólk er einnig einstaklega þakklátt fólk. Við gleðjumst yfir litlu hlutunum, nýjum útbúnaði í flugvélum okkar, mat til að borða í vinnunni, korter styttri flugtíma en gert var ráð fyrir, tala ekki um ruslið sem við söfnum samviskusamlega um borð og þökkum svo fyrir okkur! Já, en þegar allt er til alls, þá erum við fjári sjálfstætt og klárt fólk...........tala ekki um hvað við erum glæsileg.......

Skoðaði mynd tekin af mér og áhöfn sem ég var með í verkefni hér fyrir stuttu. Frítt fólk í bláu, með hvítt brosið og uppsett hárið. Allir málaðir eða pússaðir, á hælunum og með hattana. Varð fljótt ljóst að ekki var margt frábrugðið frá sauðfénu í bleiku bolunum og okkur.
Öllum er okkar sagt og skipað fyrir hvernig við lítum út og eigum að vera. Flugfólk á að vera óaðfinnanlegt. Við eigum að vera fáguð til fara og í fasi. Vel greidd, rökuð eða og máluð. Snyrtilega til fara með uniformið í réttum málum, stærðum og sídd. Skórnir fínpússaðir og sparilegir. Kvenkyns flugfólk er nauðbeitt til mála sig á ákveðinn hátt og greiða sér. Skartgriðir eiga að vera í lágmarki og úr í sérstökum stöðlum. Hjá sumum flugfélögun er það svo slæmt að líkamsmálin eiga vera þau sömu! Stóra og hlýlega brosið verður að sitja fast á, þó svo að vélin sé á leið langt niður í Atlantshaf!
Já, ég hló með sjálfum mér þegar mér varð þessi uppgötvun ljós og hugsaði með mér.....
Hvenær á að gera þáttaséríu um flugfólk???............Æ já, hún er löngu sýnd!









|

fimmtudagur, maí 17

Já OK, andinn hefur bara ekki komið yfir mig!

Vá maður! Biðst innilegrar afsökunar á þessum dræmu skrifum. Hann Gulli minn benti mér á það í gær hver lélegur ég hef verið og gat ég ekki annað en verið honum sammála. Stundum finnur maður ekki fyrir inspiration....

En það er ekki eins og ekki neitt hafi gerst í lífi Dúsksins. Aprílmánuður leið og inn datt maí. Skemmtileg ævintýri biðu þar fyrir handan hornið og má þar nefna eitt skemmtilegt verkefni til Kanada. Ég og Þóra viðhaldið mitt drifum okkur saman í smá ferð til Kanada og má þar með segja að ferðin hafi nánast orðið fullkomin! Með frábæru fólki eyddum við næstum 7 dögum í að ferðast á milli heimsálfa og skoða okkur um. Ég kom heim fullur af minningum og með gleði í hjarta yfir að hafa fengið þessa upplifun og kynnst nýjum vinum.



Við tók svo hversdagsleikinn á klakanum í fríi. Þó svo að veðrið hafi verið þokkalegt, þá er eitthvað hálf niðurdrepandi við Ísland þessa dagana.......kannski er það ég sem ekki er að sjá hlutina í réttu ljósi.....getur það verið???

Evróvisjon og kosningadagurinn kom og fór. Bæði jafn eftirminnilegt og tannlæknaheimsókn. Hmmmm.........ég er ekki frá því að kosningar söngvakeppninar og alþingis séu að mörgu leiti eins..........Ef maður er nógu lélegur þá fær maður stig!!!
Svo var það hápunktur mánaðarins. Tónleikar í gær með átrúnargoðinu mínu. Við fjölskyldan drifum okkur niður í Laugardalshöll til að bera augum á hann Josh. Ég er sem sagt búinn að ákveða að giftast manninum. Tel ég mig reyndar ekki hafa neinar forsendur fyrir því að hann spili í mínu liði, en gærkvöldið réð úrslitum um þessa ákvörðun. Hann Nalli minn verður bara að skilja þessa ósk mína, þar sem ég get nú ekki verið þekktur fyrir að láta gott tækifæri renna mér úr greipum. Spurning hvor verður fyrr til, Nalli eða ég???

|