þriðjudagur, október 16

Ferðadagbókin... *leggur 4 og 5

Annar dagur í Port Morseby!

Það er hádegi og sólin löngu komin upp og hitinn orðinn hár. Við lentum í gær um 2 leitið frá Solomon eyjum en þá höfðum við verið á fótum síðan um 2 eftir miðnætti Guineu tíma. Á sunnudag var lagt af stað með flugliða Air Niuguini í þjálfunarflug til Fiji eyja, með viðkomu á Solomon eyjum. Allt gekk þetta með besta móti, enda ekki við öðru að búast með íslensku fagfólki um borð! Solomon eyjar heilsuðu okkur með grænu fallegu landslagi, mikill raki var í loftinu en hafsgolan sem fór yfir eyjuna kom í veg fyrir að við svitnuðum of mikið. Á meðan farþegar fóru frá borði og eldsneyti var sett á vélina skutumst við út að taka myndir, allt reynt að ná sem mestu af stoppinu! Svo var rokið af stað til Fiji eyja. Ég hef heyrt mikið um Fiji. Bandaríkjamenn virðast sýna mikinn áhuga á þessum stað sem ferðamannastað og mér skilst á heimamönnum að Hollywood stjörnurnar gera sér ferð þangað til að slaka á. Ferðamannaþjónusta er í hámarki þarna, enda batnaði atvinnu ástand töluvert með tilkomu túrista. En til Fiji langar mig til að fara seinna í frí. Sagt er að strendur eyjana eru skjannahvítar og kóralrif hafsins eru ein af þeim fallegustu. Þó svo að við fengum ekki að sjá mikið af eyjunni, þá fékk ég það á tilfinningu að sögusagnirnar eru meira staðreyndir!

Snemma morguns á mánud fórum við í pickup til Tonga! Forsetisráðherra Nýju Guineu þurfti á fund og því tilvalið að við færum með hann þangað! Mér fannst það þó nokkuð skondið að heil þota þyrfti að flytja blessaðins manninn og 5 af hans mönnum á þennan fund, en farþegarnir voru eins og krækiber í berjamó í tómri flugvélinni á leið til Tonga. Þegar þangað var komið var tóku eyjaskeggjar vel á móti gesti sínum og vegna þessa fengum við þau forréttindi að sjá sérstakan dans. Menn og konur í strápilsum að dansa og fólk að spila undir á ukalele og trommur! Minnti mig soldið á Hawaii...........
Fyrr en varið vorum komin aftur í loftið til að sækja farþega okkar frá Fiji. Sama rútínan, Fiji – Solomon – Nýja Guinea. Íslenska áhöfnin var öll orðin frekar lúin á seinasta legg flugsins, enda búin að sofa lítið og tímamismunurinn farinn klárlega að segja til sín! Undirritaður lagðist meira að segja í gólfið með magaverki og hita og var því óvinnufær á leið til Guineu.

Ég vaknaði í morgun kl 3. En þá hafði ég sofið í um 12 klst samfelt. Ég hafði enga hugmynd hvar ég væri né hvaða dagur það væri. Tók mig dágóða stund að ná áttum og uppgötva að kuldinn í herbergi mínu var ekki frostið heima á Íslandi, heldur loftkælingin sem var á fullu! Vegna uppkasta daginn áður og annarra óskemmtilegra atburða, fann érg fyrir máttleysi og maginn alveg tómur. Það er greinilegt að ég hafi nælt mér í einhverskonar matareitrun, eða kannski bara staðreyndin að ég var örmagna og þreyttur og því móttekilegri fyrir kvillum.........Ég sofnaði aftur og svaf til 8! Eftir 15 klst svefn og morgunmat virðist ég vera að koma til.

Í dag verður það tekið rólega. Það er að vonast til að við getum séð meira af landinu og reynt að ná hvíld. Hún Tau, okkar tengiliður hér í bæ reynir eins og hún getur að skipuleggja skoðunarferðir og halda okkur við stafni. Ég reikna með að fara heim á fimmtudag. Annars tek ég því með ró og nýt þess að sjá heiminn í nýju ljósi þangað til. Það er svo gaman að upplifa og sjá aðra hlið af jörðinni og vita að lifnaðarhættir eru svo allt öðruvísi en hjá okkur. En þegar á botninn er hvolft, þá erum við öll eins og lifum fyrir það sama. Við erum öll manneskjur að reyna að lifa lífunu, með öllum okkar vandamálum, góðu tímarnir og slæmu.

Ný skrif enn á nýjum degi og nýjum ævintýrum!

Kv.
Ingó

|