Frelsi, fríðindi og framandi staðir!

mánudagur, apríl 28

Andvaka

Ég var vakinn upp úr værum svefni af SMS:i frá Gulla vini mínum. Hann er nú staddur í Tælandi með Magneu vinkona okkar og vildi endilega senda mér kveðju frá frændfólki mínu þarna austan frá. Ég hló með mér þegar ég las skilaboðin hálf sofandi og brosti með hálfum að vita til þess að góður vinur minn hafði fyrir því að senda mér sms um hánótt, bara það eitt til að fá mig til að hlæja.
Nú eru liðnir tveir og hálfur tími og ég get ekki sofnað aftur. Ég veit eiginlega ekki hvort ég á að bölva í hljóði eða fagna, þar sem dagurinn byrjar snemma hjá mér eftir smá.......Ég fyrirgef honum þó þetta fljótt, þar sem mér þykir svo ógurlega vænt um hann Gulla minn.

Í andvöku minni fór ég fram að maula. Ég kveikti á hjákonu minni og ákvað að flakka veraldarvefinn. Merkilegt hvað mikið er hægt að skoða um allt og ekkert. Fyrir nokkrum árum síðan samanstóð internetið af fáeinum leitarvélum og klámsíðum. (jújú, klámið kemst alltaf fyrst af stað) Í dag er þetta eins og miljóna þjóðarbókhlaða saman komið á einum stað og allt inn í stofu hjá þér. Magnað fyrirbæri og útskýrir þetta ansi vel framtaksleysi fólks, þar sem það þarf varla að fara fram úr rúmi til að gera hinu ýmsu hluti, t.d eins og að elda og versla. Maður bara kveikir á tölvunni og arkar um netið! Good shit man!!!
Við erum nýkomnir heim úr tveggja vikna ferðalagi um Bandaríkin. Ferðin var góð og vel heppnuð. En mér finnst gott að vera kominn heim. Ég er soldið heimakær þessa dagana.....ég veit ekki afhverju...........

Nýr mánuður hefst eftir korter. Ég finn fyrir kvíða........hef litla tilfinningu fyrir sumrinu sem er að koma og árið allt búið að vera mér ein ráðgáta......Getur verið að ég sé að vera af hugsjúkum homma sem er að missa glóruna??? Kannski er þetta staðreyndin að klukkan er margt og komið fram undir morgun og ég er ekki að sofna......getur verið......

Ég kveð með þessum orðum og reyni að halda af stað vit ævintýra í draumalandi.......bara ef gæti bara sofnað........

|

mánudagur, mars 24

Hann sagði eeeeeeeeeeeeeeeeegg!!!

Annar í páskum og ég nýlega kominn heim úr flugi. London var áfangastaðurinn í dag og að sjálfsögðu nóg að gera. Er samt hálf ringlaður og utan við mig og er farinn að óttast að ég sé að fá flensu.
En páskarnir komu og fóru og verð ég eiginlega að viðurkenna að þessi tími er orðinn minn uppáhalds hátíð. Maður nær að slappa af og liggja í leti og virkilega ná að safna saman kröftum....nú svo fremur sem þú ert í fríi. Vinnumánuðurinn fer að taka á enda og um næstu helgi skellum við karlar okkur á árshátíð hjá bóksölunni. Það verður fróðlegt að sjá í hvaða formi hún verður á þessu ári!
Svo þýtur undirritaður til hinna vestrænu heima á sunnudag, smá vinnustopp til að enda mánuðinn.
En handan við hornið í næsta mánuði, er svo stórt gott ferðalag með gömlu hjónunum í Lóuás, en það er við því að búast að það verði ævintýri til að minnast.

Vona að sem flestir hafa notið páskana og ekki étið á sig gat af súkkulaði eggjum!

|

miðvikudagur, mars 12

Já einmitt, bloggsíðan er enn virk!

Ég átti í dag alveg hrikalega notalega stund með góðum vinkonum mínum. Hentist í kaffi til þeirra og eyddi mest öllum deginum með þeim í spjall og þanka lífsins.
Var kominn með upp í kok af lærdómi þennan morgun, og vantaði að komast út. Þetta var góð afslöppun og hreinsun á huganum. Ég sat og knústi litla son annarrar þeirra næstum allan þann tíma sem ég var þarna. Litla krílið er rúmlega 3 mánaða og eins og lítill böggull! Hann passaði ansi vel í fangi mínu og hefði ég getað gleymt mér í leik með honum í heilan dag hefði ég fengið tækifæri til........
Vinkonur mínar eru ótrúlegar. Það er gott að fá smá rétta innsýn í lífið þegar maður eyðir með þeim dagsstund..........

Hef verið mjög latur við að blogga.......Stundum er maður ekki á þannig stað að geta deilt með neinum hluti úr lífi sínu......stundum er maður of upptekinn við að lífa því. Ég er viss um að fljótlega fer flóðgáttin að opnast og ég ulla út úr mér hverju einasta atriði sem er að gerast hverju sinni. Hlakkið þið til???

|

laugardagur, febrúar 2

Congratulations

Í dag, 2. febrúar á ég afmæli!
Eftir nokkra klukkutíma verð ég formlega árinu eldri.
Ég mun eyða þessum degi í fitumælingar og styrktarþolsprófum. Mér finnst þetta vera ansi góð leið til að byrja nýjan aldur.
Til hamingju ég!!!

|

föstudagur, janúar 25

Rækta mig alla daga!

Úti er snjór og skítkalt!
Það hefur kyngt niður hér seinustu daga og liggur við að maður fari í vöðlur til að komast út. Í fréttum er sagt frá hvernig björgunsveitin hefur þurft að aðstoða fólk sem fest hefur bíla sína hér og þar og flugfélögin hafa þurft að fresta flugum sínum. Já, ekki er það annarlegt ástandið hér heim, en mér finnst það alltaf jafn merkilegt hversu undrandi við verðum þegar það loks snjóar hér á landi!

Ég er búinn að vera einstaklega latur við að blogga upp á síðkastið.........Annars vegar ákvað ég að taka mér frí frá öllu amstri hversdagsleikans og njóta þess að vera í launalausu "orlofi" í byrjun þessa árs. Það hefur gengið vel eftir og ég nánast sakna þess varla að vera að vinna fyrir laununum mínu. Dagar mínir einkennast af að vakna og borða, fara í ræktina og koma svo heim aftur og elda kvöldmat. Ef ég væri húsmóðir fyrir um 50 árum síðan væri ég líklega að prjóna líka! Hinsvegar hafði ég ekkert um neitt að skrifa, jólin komu og fóru og þar við sat það. En ég gat nú ekki lengi setið á mér í aðgerðarleysi og leti og ákvað að finna mér eitthvað fyrir stafni næsta mánuðinn og þangað til ég hendist í háloftin.
Þar sem ég eyði mest öllum mínum tíma í heilsuræktinni og fimleikasalnum, var stefnan tekin á að afla sér réttinda í einkaþjálfun! Ef allt gengur eftir verð ég orðin löggiltur alþjóðlegur einkaþjálfar í enda mars. Aldrei að vita hvort maður reyni ekki að fá starf við slíkt einnig......

Ég vonast til þess að þessi færsla sé sú fyrsta af mörgum sem koma skal. Maður þarf að fara að efla pennann í sér og láta ljós sitt skína á ný á veraldarvefnum!
Þangað til bið ég að heilsa ykkur.......

Adios!!!

|

föstudagur, desember 7

Nýr háls í skóinn!

Það er myrkur úti og klukkan ekki orðin nóg til að fólk sé komið á fætur. Ég er búinn að bilta mér fram og aftur í rúminu í alla nótt, varla á ná neinum einasta svefni. Einhver helvítis pest er að plaga mig og hálsinn á mér verkjar ólýsanlega mikið. Furðulegt hvað maður verður mikill aumingi þegar maður er veikur. Ég átti að vera í Minneapolis núna. Flensan náði taki á mér áður og þegar hitinn var orðinn það mikill að ég gat varla staðið í lappirnar, ákvað ég að hringja mig inn veikan. Ég sé ekki eftir því........

Jólaundirbúningur er í hámarki, en við karlar erum með hendur fram úr ermum í þeim málum (þar með talið horið og tisjúpakkann). Við skelltum okkur í vikuferð vestur eftir til Nýju Jórvíkur og Boston til að versla jólagjafir og slaka á. Ameríka er æðislega. Hún tekur á móti manni með fagnandi hendi og maður langar varla til að fara heim.

Í New York eyddum við 3 dögum í að skoða okkur um, borða og drekka og njóta samveru hvors annars. Þó svo að þetta séu kunnuglegar slóðir, þá hefur einhvern veginn aldrei gefist tími í að almennilega skoða borgina og njóta alls sem hún hefur upp á bjóða.

Á fjórða degi tókum við svo flug yfir til Boston en þar beið okkar hótel og verslunarleiðangur mikill. Þóra vinkona og Gunni voru einnir í heimsborginni miklu og hittumst við til að snæða saman og njóta góðra kvöldstunda!


Fyrir framan mig standa svo jólapakkarnir tilbúnir. Jólakortin eru næst, en planið er að koma þessu öllu út um helgina (ja svo fremur sem ég verð ekki enn rúmliggjandi). Jólaösið er á komið á fullt í búðinni hans Nalla og ég að vinna fram á aðfangadag. Svo það er gott að vera búinn með þetta tímanlega og hægt að njóta aðventunar að einhverju leiti......

Nú er bara að losa sig við flensuna og hálsbólguna og taka jólin með trompi!

Ætli jólasveinninn setji meðal í skóinn???

|

sunnudagur, október 21

Ferðadagbókin... *leggur 6 og 7

Næstu tvo daga var ekki mikið gert í Port Moresby. Við áhöfnin vorum búin að gera okkar í því sem við áttum að gera og nú beið okkar fyrirmæli um hvenær við áttum að fara heim. Á þriðjudeginum var einungis legið í leti og slakað á. Flest okkar vorum frekar slöpp, aðrir meira en hinir, ég sjálfur lá í rúminu og hafði hægt um mig. Daginn eftir fórum við Berglind kennari í spa treatment. Pöntuðum okkur andlitshreinsun og nudd, handsnyrtingu og fótsnyrtingu. Í 4 klst létum við dekra við okkur í fallegu umhverfi með austurlenska tónlist. Við okkur blasti fjallshlíðar Nýju Guineu. Þetta var hreint unaðslegt og frábær leið til að endurnæra líkama og sál! Á fimmtudeginum (18. Okt) var áætlað að við tækjum næstu vél til Singapore, eitthvað áleiðis heim. Eins mikið og mig langaði til að vera lengur og upplífa ævintýrið meira, þá togaði heimþráin í mig. Kl 3 eftir hádegi, tók vél okkar á loft til Singapore, við höfðum ekki hugmynd um hvað beið okkar þar.....

Föstudagurinn 19.okt, það var morgun í Singapore og ég og stelpurnar komin á fætur. Við ákváðum að enn og aftur að kíkja í bæinn og í þetta skipti í búðir! Flugfólki er það eðlislægt að versla og við gerum það hratt og örugglega, engin tími má fara til spillis og kaup og kjör er skoða gaumgæfulega áður en varan er keypt. Þetta var gert í okkar tilfelli og fóru sumir hamförum í SunTech mall í miðbænum.
Við ákváðum að kíkja aftur í Litla Indland og fara á markaði og enduðum loks í Sim Lim, uppáhalds verslunarhverfinu, en þar má finna öll þau raftæki sem þú vilt og prútta verð! Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað var keypt!!! Um kvöldið áttum við svo flug pantað heim til Parísar. Vissuð þið að það er 13 tíma flug frá Singapore til Parísar, við sátum í sætum okkar með skelfingarsvip í framan, brjótandi heilann um hvað við ættum af okkur að gera á þessu langa, langa flugi..........

Ég vaknaði upp við ljóstifu í flugvél Singapore Airlines. Þá hafði ég dottað í fáeina klukktíma. Það var myrkur um borð og flestir sofandi. Við vorum búin að borða kvöldmat.......ég setti í gang kvikmynd á skjánum fyrir framan mig og kúrði mig niður í sætið.....enn 8 klst eftir........sjitt.........
Eldsnemma morguns 20.okt lentum við á Charles De Gaulle flugvelli í París. Það voru 7 tímar til brottfarar á Íslandsvélinni, svo ekki mikið hægt að gera nema finna sér kaffistað og hanga! Öll illa sofinn, þreytt og útkeyrð sátum við og drukkum kaffi og borðuðum croissant, hlaðin töskum upp fyrir haus! Það var mikið hlegið og mikið kjaftað, enda þreytugalsi kominn í fólk. Ég ætla ekki einu sinni að lýsa fyrir ykkur hve leiðinlegur CDG flugvöllur er..............

Nú sit ég í stofunni minni, kominn heim. Það er morgun og samkvæmt Singapore tíma er klukkan 7 að kvöldi til. Ég var soldið lengi að átta mig á því í nótt þegar ég vaknaði að ég væri í raun heima hjá mér og rúmið sem ég svæfi í var mitt eigið og ekki hótelrúm. Mér finnst svo gott að vera kominn heim, lít tilbaka á ferðalag mitt með söknuði. Þetta er allt enn hálf óraunverulegt og ef hugsað er út í það, þá eru bara tveir dagar síðan ég var að strunsa um í miðborg Singapore, mörgum hundruðum kílómetrum frá Íslandi. Já, svona lítill er heimurinn og ekki meira mál en að hoppa upp í flugvél og skoða hann allann!

Kv,

Ingó, heimsflakkarinn, kominn loks heim

|