laugardagur, október 13

Ferðadagbókin... *leggur 3

Þá er það meira!
Það er komið kvöld í Papua Nýju Guinea. Við crewið erum nýbúin að snæða og okkar bíður nú næsti áfangastaður í fyrramálið. Áætlað er að fljúga til Salómon eyja og síðan Fíji eyja, en þar verðum við yfir nótt í stuttan tíma. Á mánudags morgun sækjum við svo forsetisráðherra Nýju Guineu, en það kom óvænt upp að ræfillinn er fastur þar og þarf nauðsynlega að komast til Tonga! Hmmmmmm.....Tonga.....veit einhver hvar það er???
En við leggjum af stað snemma í fyrramálið ásamt flugliðum Air Niuguini, sem eru með okkur í þjálfun. Þetta er allt voða spennandi og auðvitað óljóst, en þessu er tekið með ró, eins og flugfólki einu er lagið!

Dagurinn í dag var yndiselgur hér á eyjunni. Við hittumst í morgunmat hér á hótelinu en héldum síðan á fund með stjórnendum Guinea flugfélagsins. Þar var farið yfir helstu punkta verkefnisins og við hverju er að búast. Allir hér eru vinalegir með eindæmum, bæði innfæddir og þeir sem hafa búið hér í stuttan tíma. Okkar tengiliður hér, hún Tau fór með okkur í skoðunarferð, en við fórum einnig í heimsók í heimabæ (þorp) hennar hér rétt hjá! Sjaldan hef ég upplifað annað eins, þar sem ég hef ekki mikla reynslu af því að heimsækja fátæk þorp. Stórir kofar voru út um allt, en efniviðurinn sem hélt þeim saman var ekki af betri kantinum. Út um allt hljómaði tónlist og fólk að spjalla og börn að leika sér. Þegar við komum keyrandi inn í þorpið ásamt fylgdarliði okkar, ljómuðu börnin upp og fyrr en varið vorum við umkringd af stórum brúnum augum, öll ólm í að fá að kynnast okkur. Mér fannst það ansi merkilegt hve áhugasöm þau voru að fá að skoða okkur og hversu mikið þau vildu láta mynda sig, bæði ein og með okkur! Þorpsbúar voru almennt ánægðir að fá að sjá ferðamennina skoða heimili sín og brostu sínu blíðasta þegar við komum og bönkuðum á............Þegar við fórum, gátum við séð tugi manna veifa okkur bless. Það bræddi mitt litla hjarta að fá að upplifa þessa reynslu og ég get enn séð börnin brosandi framan í mig............

Svo er bara að sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ég get ekki annað en beðið með löngun eftir hverju ég fæ að sjá og skoða, og hvaða framandi staðir bíða mín! Þetta er búið að vera hreint ótrúlegt, og vonandi heldur það áfram þannig ;) Klukkan er orðin margt og ég þarf að fara á fætur snemma í fyrramálið. Rúmið bíður mín og pökkun í töskur. Áætlað er að koma aftur til Nýju Guineu á mánud, svo fremur sem allt stenst, en eftir það flest allt óljóst. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta er góð æfing fyrir mig, sem þarf helst að plana allt og vita allt langt fyrirfram!!!
Næstu skrif á nýjum degi, hvar veit ég ekki.......... ;)

Kv.

Ingó blindi heimshornaflakkarinn! (sem hefur öðlast nýja auðmýkt)

|