sunnudagur, október 21

Ferðadagbókin... *leggur 6 og 7

Næstu tvo daga var ekki mikið gert í Port Moresby. Við áhöfnin vorum búin að gera okkar í því sem við áttum að gera og nú beið okkar fyrirmæli um hvenær við áttum að fara heim. Á þriðjudeginum var einungis legið í leti og slakað á. Flest okkar vorum frekar slöpp, aðrir meira en hinir, ég sjálfur lá í rúminu og hafði hægt um mig. Daginn eftir fórum við Berglind kennari í spa treatment. Pöntuðum okkur andlitshreinsun og nudd, handsnyrtingu og fótsnyrtingu. Í 4 klst létum við dekra við okkur í fallegu umhverfi með austurlenska tónlist. Við okkur blasti fjallshlíðar Nýju Guineu. Þetta var hreint unaðslegt og frábær leið til að endurnæra líkama og sál! Á fimmtudeginum (18. Okt) var áætlað að við tækjum næstu vél til Singapore, eitthvað áleiðis heim. Eins mikið og mig langaði til að vera lengur og upplífa ævintýrið meira, þá togaði heimþráin í mig. Kl 3 eftir hádegi, tók vél okkar á loft til Singapore, við höfðum ekki hugmynd um hvað beið okkar þar.....

Föstudagurinn 19.okt, það var morgun í Singapore og ég og stelpurnar komin á fætur. Við ákváðum að enn og aftur að kíkja í bæinn og í þetta skipti í búðir! Flugfólki er það eðlislægt að versla og við gerum það hratt og örugglega, engin tími má fara til spillis og kaup og kjör er skoða gaumgæfulega áður en varan er keypt. Þetta var gert í okkar tilfelli og fóru sumir hamförum í SunTech mall í miðbænum.
Við ákváðum að kíkja aftur í Litla Indland og fara á markaði og enduðum loks í Sim Lim, uppáhalds verslunarhverfinu, en þar má finna öll þau raftæki sem þú vilt og prútta verð! Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað var keypt!!! Um kvöldið áttum við svo flug pantað heim til Parísar. Vissuð þið að það er 13 tíma flug frá Singapore til Parísar, við sátum í sætum okkar með skelfingarsvip í framan, brjótandi heilann um hvað við ættum af okkur að gera á þessu langa, langa flugi..........

Ég vaknaði upp við ljóstifu í flugvél Singapore Airlines. Þá hafði ég dottað í fáeina klukktíma. Það var myrkur um borð og flestir sofandi. Við vorum búin að borða kvöldmat.......ég setti í gang kvikmynd á skjánum fyrir framan mig og kúrði mig niður í sætið.....enn 8 klst eftir........sjitt.........
Eldsnemma morguns 20.okt lentum við á Charles De Gaulle flugvelli í París. Það voru 7 tímar til brottfarar á Íslandsvélinni, svo ekki mikið hægt að gera nema finna sér kaffistað og hanga! Öll illa sofinn, þreytt og útkeyrð sátum við og drukkum kaffi og borðuðum croissant, hlaðin töskum upp fyrir haus! Það var mikið hlegið og mikið kjaftað, enda þreytugalsi kominn í fólk. Ég ætla ekki einu sinni að lýsa fyrir ykkur hve leiðinlegur CDG flugvöllur er..............

Nú sit ég í stofunni minni, kominn heim. Það er morgun og samkvæmt Singapore tíma er klukkan 7 að kvöldi til. Ég var soldið lengi að átta mig á því í nótt þegar ég vaknaði að ég væri í raun heima hjá mér og rúmið sem ég svæfi í var mitt eigið og ekki hótelrúm. Mér finnst svo gott að vera kominn heim, lít tilbaka á ferðalag mitt með söknuði. Þetta er allt enn hálf óraunverulegt og ef hugsað er út í það, þá eru bara tveir dagar síðan ég var að strunsa um í miðborg Singapore, mörgum hundruðum kílómetrum frá Íslandi. Já, svona lítill er heimurinn og ekki meira mál en að hoppa upp í flugvél og skoða hann allann!

Kv,

Ingó, heimsflakkarinn, kominn loks heim

|