Frelsi, fríðindi og framandi staðir!

sunnudagur, október 21

Ferðadagbókin... *leggur 6 og 7

Næstu tvo daga var ekki mikið gert í Port Moresby. Við áhöfnin vorum búin að gera okkar í því sem við áttum að gera og nú beið okkar fyrirmæli um hvenær við áttum að fara heim. Á þriðjudeginum var einungis legið í leti og slakað á. Flest okkar vorum frekar slöpp, aðrir meira en hinir, ég sjálfur lá í rúminu og hafði hægt um mig. Daginn eftir fórum við Berglind kennari í spa treatment. Pöntuðum okkur andlitshreinsun og nudd, handsnyrtingu og fótsnyrtingu. Í 4 klst létum við dekra við okkur í fallegu umhverfi með austurlenska tónlist. Við okkur blasti fjallshlíðar Nýju Guineu. Þetta var hreint unaðslegt og frábær leið til að endurnæra líkama og sál! Á fimmtudeginum (18. Okt) var áætlað að við tækjum næstu vél til Singapore, eitthvað áleiðis heim. Eins mikið og mig langaði til að vera lengur og upplífa ævintýrið meira, þá togaði heimþráin í mig. Kl 3 eftir hádegi, tók vél okkar á loft til Singapore, við höfðum ekki hugmynd um hvað beið okkar þar.....

Föstudagurinn 19.okt, það var morgun í Singapore og ég og stelpurnar komin á fætur. Við ákváðum að enn og aftur að kíkja í bæinn og í þetta skipti í búðir! Flugfólki er það eðlislægt að versla og við gerum það hratt og örugglega, engin tími má fara til spillis og kaup og kjör er skoða gaumgæfulega áður en varan er keypt. Þetta var gert í okkar tilfelli og fóru sumir hamförum í SunTech mall í miðbænum.
Við ákváðum að kíkja aftur í Litla Indland og fara á markaði og enduðum loks í Sim Lim, uppáhalds verslunarhverfinu, en þar má finna öll þau raftæki sem þú vilt og prútta verð! Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað var keypt!!! Um kvöldið áttum við svo flug pantað heim til Parísar. Vissuð þið að það er 13 tíma flug frá Singapore til Parísar, við sátum í sætum okkar með skelfingarsvip í framan, brjótandi heilann um hvað við ættum af okkur að gera á þessu langa, langa flugi..........

Ég vaknaði upp við ljóstifu í flugvél Singapore Airlines. Þá hafði ég dottað í fáeina klukktíma. Það var myrkur um borð og flestir sofandi. Við vorum búin að borða kvöldmat.......ég setti í gang kvikmynd á skjánum fyrir framan mig og kúrði mig niður í sætið.....enn 8 klst eftir........sjitt.........
Eldsnemma morguns 20.okt lentum við á Charles De Gaulle flugvelli í París. Það voru 7 tímar til brottfarar á Íslandsvélinni, svo ekki mikið hægt að gera nema finna sér kaffistað og hanga! Öll illa sofinn, þreytt og útkeyrð sátum við og drukkum kaffi og borðuðum croissant, hlaðin töskum upp fyrir haus! Það var mikið hlegið og mikið kjaftað, enda þreytugalsi kominn í fólk. Ég ætla ekki einu sinni að lýsa fyrir ykkur hve leiðinlegur CDG flugvöllur er..............

Nú sit ég í stofunni minni, kominn heim. Það er morgun og samkvæmt Singapore tíma er klukkan 7 að kvöldi til. Ég var soldið lengi að átta mig á því í nótt þegar ég vaknaði að ég væri í raun heima hjá mér og rúmið sem ég svæfi í var mitt eigið og ekki hótelrúm. Mér finnst svo gott að vera kominn heim, lít tilbaka á ferðalag mitt með söknuði. Þetta er allt enn hálf óraunverulegt og ef hugsað er út í það, þá eru bara tveir dagar síðan ég var að strunsa um í miðborg Singapore, mörgum hundruðum kílómetrum frá Íslandi. Já, svona lítill er heimurinn og ekki meira mál en að hoppa upp í flugvél og skoða hann allann!

Kv,

Ingó, heimsflakkarinn, kominn loks heim

|

þriðjudagur, október 16

Ferðadagbókin... *leggur 4 og 5

Annar dagur í Port Morseby!

Það er hádegi og sólin löngu komin upp og hitinn orðinn hár. Við lentum í gær um 2 leitið frá Solomon eyjum en þá höfðum við verið á fótum síðan um 2 eftir miðnætti Guineu tíma. Á sunnudag var lagt af stað með flugliða Air Niuguini í þjálfunarflug til Fiji eyja, með viðkomu á Solomon eyjum. Allt gekk þetta með besta móti, enda ekki við öðru að búast með íslensku fagfólki um borð! Solomon eyjar heilsuðu okkur með grænu fallegu landslagi, mikill raki var í loftinu en hafsgolan sem fór yfir eyjuna kom í veg fyrir að við svitnuðum of mikið. Á meðan farþegar fóru frá borði og eldsneyti var sett á vélina skutumst við út að taka myndir, allt reynt að ná sem mestu af stoppinu! Svo var rokið af stað til Fiji eyja. Ég hef heyrt mikið um Fiji. Bandaríkjamenn virðast sýna mikinn áhuga á þessum stað sem ferðamannastað og mér skilst á heimamönnum að Hollywood stjörnurnar gera sér ferð þangað til að slaka á. Ferðamannaþjónusta er í hámarki þarna, enda batnaði atvinnu ástand töluvert með tilkomu túrista. En til Fiji langar mig til að fara seinna í frí. Sagt er að strendur eyjana eru skjannahvítar og kóralrif hafsins eru ein af þeim fallegustu. Þó svo að við fengum ekki að sjá mikið af eyjunni, þá fékk ég það á tilfinningu að sögusagnirnar eru meira staðreyndir!

Snemma morguns á mánud fórum við í pickup til Tonga! Forsetisráðherra Nýju Guineu þurfti á fund og því tilvalið að við færum með hann þangað! Mér fannst það þó nokkuð skondið að heil þota þyrfti að flytja blessaðins manninn og 5 af hans mönnum á þennan fund, en farþegarnir voru eins og krækiber í berjamó í tómri flugvélinni á leið til Tonga. Þegar þangað var komið var tóku eyjaskeggjar vel á móti gesti sínum og vegna þessa fengum við þau forréttindi að sjá sérstakan dans. Menn og konur í strápilsum að dansa og fólk að spila undir á ukalele og trommur! Minnti mig soldið á Hawaii...........
Fyrr en varið vorum komin aftur í loftið til að sækja farþega okkar frá Fiji. Sama rútínan, Fiji – Solomon – Nýja Guinea. Íslenska áhöfnin var öll orðin frekar lúin á seinasta legg flugsins, enda búin að sofa lítið og tímamismunurinn farinn klárlega að segja til sín! Undirritaður lagðist meira að segja í gólfið með magaverki og hita og var því óvinnufær á leið til Guineu.

Ég vaknaði í morgun kl 3. En þá hafði ég sofið í um 12 klst samfelt. Ég hafði enga hugmynd hvar ég væri né hvaða dagur það væri. Tók mig dágóða stund að ná áttum og uppgötva að kuldinn í herbergi mínu var ekki frostið heima á Íslandi, heldur loftkælingin sem var á fullu! Vegna uppkasta daginn áður og annarra óskemmtilegra atburða, fann érg fyrir máttleysi og maginn alveg tómur. Það er greinilegt að ég hafi nælt mér í einhverskonar matareitrun, eða kannski bara staðreyndin að ég var örmagna og þreyttur og því móttekilegri fyrir kvillum.........Ég sofnaði aftur og svaf til 8! Eftir 15 klst svefn og morgunmat virðist ég vera að koma til.

Í dag verður það tekið rólega. Það er að vonast til að við getum séð meira af landinu og reynt að ná hvíld. Hún Tau, okkar tengiliður hér í bæ reynir eins og hún getur að skipuleggja skoðunarferðir og halda okkur við stafni. Ég reikna með að fara heim á fimmtudag. Annars tek ég því með ró og nýt þess að sjá heiminn í nýju ljósi þangað til. Það er svo gaman að upplifa og sjá aðra hlið af jörðinni og vita að lifnaðarhættir eru svo allt öðruvísi en hjá okkur. En þegar á botninn er hvolft, þá erum við öll eins og lifum fyrir það sama. Við erum öll manneskjur að reyna að lifa lífunu, með öllum okkar vandamálum, góðu tímarnir og slæmu.

Ný skrif enn á nýjum degi og nýjum ævintýrum!

Kv.
Ingó

|

laugardagur, október 13

Ferðadagbókin... *leggur 3

Þá er það meira!
Það er komið kvöld í Papua Nýju Guinea. Við crewið erum nýbúin að snæða og okkar bíður nú næsti áfangastaður í fyrramálið. Áætlað er að fljúga til Salómon eyja og síðan Fíji eyja, en þar verðum við yfir nótt í stuttan tíma. Á mánudags morgun sækjum við svo forsetisráðherra Nýju Guineu, en það kom óvænt upp að ræfillinn er fastur þar og þarf nauðsynlega að komast til Tonga! Hmmmmmm.....Tonga.....veit einhver hvar það er???
En við leggjum af stað snemma í fyrramálið ásamt flugliðum Air Niuguini, sem eru með okkur í þjálfun. Þetta er allt voða spennandi og auðvitað óljóst, en þessu er tekið með ró, eins og flugfólki einu er lagið!

Dagurinn í dag var yndiselgur hér á eyjunni. Við hittumst í morgunmat hér á hótelinu en héldum síðan á fund með stjórnendum Guinea flugfélagsins. Þar var farið yfir helstu punkta verkefnisins og við hverju er að búast. Allir hér eru vinalegir með eindæmum, bæði innfæddir og þeir sem hafa búið hér í stuttan tíma. Okkar tengiliður hér, hún Tau fór með okkur í skoðunarferð, en við fórum einnig í heimsók í heimabæ (þorp) hennar hér rétt hjá! Sjaldan hef ég upplifað annað eins, þar sem ég hef ekki mikla reynslu af því að heimsækja fátæk þorp. Stórir kofar voru út um allt, en efniviðurinn sem hélt þeim saman var ekki af betri kantinum. Út um allt hljómaði tónlist og fólk að spjalla og börn að leika sér. Þegar við komum keyrandi inn í þorpið ásamt fylgdarliði okkar, ljómuðu börnin upp og fyrr en varið vorum við umkringd af stórum brúnum augum, öll ólm í að fá að kynnast okkur. Mér fannst það ansi merkilegt hve áhugasöm þau voru að fá að skoða okkur og hversu mikið þau vildu láta mynda sig, bæði ein og með okkur! Þorpsbúar voru almennt ánægðir að fá að sjá ferðamennina skoða heimili sín og brostu sínu blíðasta þegar við komum og bönkuðum á............Þegar við fórum, gátum við séð tugi manna veifa okkur bless. Það bræddi mitt litla hjarta að fá að upplifa þessa reynslu og ég get enn séð börnin brosandi framan í mig............

Svo er bara að sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ég get ekki annað en beðið með löngun eftir hverju ég fæ að sjá og skoða, og hvaða framandi staðir bíða mín! Þetta er búið að vera hreint ótrúlegt, og vonandi heldur það áfram þannig ;) Klukkan er orðin margt og ég þarf að fara á fætur snemma í fyrramálið. Rúmið bíður mín og pökkun í töskur. Áætlað er að koma aftur til Nýju Guineu á mánud, svo fremur sem allt stenst, en eftir það flest allt óljóst. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta er góð æfing fyrir mig, sem þarf helst að plana allt og vita allt langt fyrirfram!!!
Næstu skrif á nýjum degi, hvar veit ég ekki.......... ;)

Kv.

Ingó blindi heimshornaflakkarinn! (sem hefur öðlast nýja auðmýkt)

|

fimmtudagur, október 11

Ferðadagbókin... *leggur 2

Ný borg, ný heimsálfa!
Lentum um 3 eftir miðnætti í Singapore. Hentumst upp á hótel til að ná auka hvíld, enda líkamsklukkan eitthvað að klikka hjá okkur. Hvert skipti sem við færum okkar nær austur eftir, missum við auðvitað nokkra klukkutíma. Eftir smá svefn var haldið af stað inn í miðborg Singapore. Borgin er falleg og hrein, iðandi af lífi, sambland af gömlu og nýju. Út um allt má sjá gróður og litríkar plöntur, gömul hús .....en ef maður lítur aðeins lengra gnæfa þessi risa háhýsi í nútímalegum stíl. Arkitektúr Singapore er mjög sérstök. Borgarbúar eru greinilega mikið fyrir að skreyta byggingar sínar með fallegum þökum, upplýstum í ljósum og allt mjög nýjungargjarnt..........Landsmenn eru þægilegt fólk. Glaðlynd og sérstaklega hjálpsöm, en þar sem vakti athygli okkar var hversu mikinn áhuga þau hafa á að kynna borg sína fyrir ferðamönnum og tala því einstaklega góða ensku.....nánast öll með rentu! Íbúar Singapore eru af öllum þjóðarkynjum. Svo virðist sem enska sé aðaltungumálið sem fólk notast við, en hér búa kínverjar, indverjar, mandarínmenn, bretar og einnig ameríkanar.

Við gripum strætó á fleygiferð og komum okkur niður í miðbæ. Þar var hitt á hluta af samferðahópnum og fengið sér að borða. Froskalappir, karrí og kjúklingur...allt mjög austurlenskt! Hér var þó hægt að fá eitthvað að borða, annað en í Dubai þar sem hvorki var hægt að fá vott né þurrt vegna ramadan mánarins!!! Að hætti flugfólks, er ekki annað hægt en að kíkja í búðir og í versta falli gera verðmun. Þetta átti við bæði kellingar OG karla áhafnarinnar! Vissuð þið að singapore-dollari er einungis 40 iskr??? Hér var klárlega hægt að gera kjarakaup og gátu borgarbúar hlegið af túrista evrópu búunum, allir með poka í hendi og eitthvað í þeim! ;)

Við fréttum af fallegu hverfi sem kallast „Little India“. Á augabragði breyttist alþjóðlega borgin yfir í Indland, en út um allt voru götustandar með fallegum munum, grænmeti, kryddum, efni og auðvitað mat. Logandi reykelsi, indversk tónlist og pappalampar hátt og lágt, konur í sahri og menn með vafninga um hausinn. Stemmningin var hreint ótrúleg, allt svo friðsælt, en engu að síður iðandi af lífi og í raun alveg eins og fræðsluþættir National Gepgraphic! Hreinlega töfrandi!!!
Við húkkuðum taxi og fórum í Kínahverfið. Röltum þar um, tókum myndir og skoðuðum. Enduðum svo í hindúa hofi þar sem bænastund átti sér stað. Til að getað stígið fæti inn í hofið varð maður að vera berfættur, en það sam fangaði athygli mína var út um allt sátu menn og konur að kyrja, en inn á milli mátti sjá aðra tala í gemsann sinn!!! Já greinilegt að hindúar hafa fylgt tækninni eins og við hin.

Pickup er svo rétt fyrir miðnætti. Þá hefst næsti leggur, en jafnframt lokaleggurinn í átt að áfangastaðnum Papua Nýja Guinea. Við höfum ekki hugmynd hvað bíður okkur þar. Hvernig landið er, nú eða hvaða vinna bíður okkar. Þetta er allt enn óljóst......og tökum við hvert stopp með hálfgerðu kæruleysi. Enn á eftir að þjálfa flugliða þar niðurfrá og eigum við að taka einhvern þátt í því.
Næstu skrif verða væntanlega í Guineu og aftur í nýju landi og nýjum ævintýrum!

Kv,

Ingó

|

miðvikudagur, október 10

Ferðadagbókin... *leggur 1

Jæja þá!
Það er komið yfir hádegi í Sarjah í Sameinuðu Fursta ríkjunum. Ferðin hingað gekk með eindæmum vel, enda ekki skrýtið þar sem ekki einn farþegi var um borð. Við hófum þessa 8 ½ tíma ferð í gærmorgun og lentum kl 10 um kvöld að staðartíma. Það sem mætti okkur var 37 stiga hiti og svaðalegur raki, smá breyting frá loftslagi Íslands.
Áhöfnin er frábær! Við erum 16 stk, flugmenn, freyjur og flugvirkjar og munum fylgjast að svona að mestu þangað til við komum til Papua Nýju Guinea. Flugferðin okkar hingað var auðvitað ljúf. En eins og við göntuðumst með í gær, þá er það ekki slæmt að ferðast hálfan heiminn á „einkaþotu“, með allar kræsingar um borð, mat og drykk eins og við getum í okkur látið!

Í Sarjah fer vel um okkur. Búum á 5 stjörnu fyrsta flokks hóteli og úr herbergisglugga mínum blasir borgin við í allri sinni dýrð. Það er eins og vera kominn í 1001 nótt, húsin og hallirnar hvítar með vötnum og gosbrunnum. Við hófum daginn á að fara í morgunmat hér á hótelinu og drifum okkur svo í snari út til að grípa leigubíl til Dubai. Stelpurnar vildu ólmar komast í gull og demants markaðina. Við strákarnir ákváðum að fylgja með, enda margt að skoða á leiðinni. Gullið og demantarnir voru þó skildir eftir og meira bara skoðað og gengið um. Ég og Begga öryggiskennari röltum borgina á enda, fórum í siglingu og skoðuðum kryddmarkaði og efni. Enn og aftur, allt eins og 1001 nótt!

Pickup er eftir klst. En þá er lagt í hann til Singapore. 7 ½ klst flug bíður okkar og miðað við gamanið á okkur í nótt, verður lagst fljótlega í sætin með kodda og teppi. Það kítlar í magann af spenningi yfir því sem bíður okkar í Singapore.....allt ennþá óljóst........en pottþétt gaman!
Sturtan bíður mín og svo uniformið. Næstu skrif í nýrri heimsálfu og nýjum ævintýrum!

Kv,

Ingó

|

laugardagur, október 6

Dialouge

Það var 28 stiga hiti og sól í New York í gærdag. Ég var búinn að eyða fyrripart dags í Central Park, kófsveittur, með Gatorade í hendi í powergöngu að spóka mig um. Sólin var að baka mig og ég dauðsá eftir því að hafa ekki skellt mér í stuttbuxur og hlýrabol, frekar en það sem ég klæddist þarna í hitanum. New York búar eru annaðsamt fólk. Út um allt var fólk að ganga með hundana sína, skokka eða hjóla. Í eyrunum var handfrjálsi búnaðurinn tengdur símanum, en ég gerði mér upp þá hugmynd að hér væri fólk á ferð að kaupa og selja hlutabréf. Engin sekúnda til spillis.........Ég ákvað að kæla mig niður í loftkældum verslunum borgarinnar og hélt af stað í áttina að 5. breiðgötu og í átt að verslununni sem hún Rachel í Friends vann svo lengi í . Sólarhring seinna er ég með hálfgerðar harrsperrur í kálfunum, enda ekki stuttar vegalengdirnar í heimsborginni miklu.

Stóra ferðalagið mitt frestaðist um viku! Mér til mikilla vonbrigða........Það er bara að vonast til að við komum okkur loks af stað eftir helgi. En helgin er framundan og tími til afslöppunar, bara ef veðrið gæti skánað eitthvað og sólin á klakanum látið sjá sig...........

|