miðvikudagur, október 10

Ferðadagbókin... *leggur 1

Jæja þá!
Það er komið yfir hádegi í Sarjah í Sameinuðu Fursta ríkjunum. Ferðin hingað gekk með eindæmum vel, enda ekki skrýtið þar sem ekki einn farþegi var um borð. Við hófum þessa 8 ½ tíma ferð í gærmorgun og lentum kl 10 um kvöld að staðartíma. Það sem mætti okkur var 37 stiga hiti og svaðalegur raki, smá breyting frá loftslagi Íslands.
Áhöfnin er frábær! Við erum 16 stk, flugmenn, freyjur og flugvirkjar og munum fylgjast að svona að mestu þangað til við komum til Papua Nýju Guinea. Flugferðin okkar hingað var auðvitað ljúf. En eins og við göntuðumst með í gær, þá er það ekki slæmt að ferðast hálfan heiminn á „einkaþotu“, með allar kræsingar um borð, mat og drykk eins og við getum í okkur látið!

Í Sarjah fer vel um okkur. Búum á 5 stjörnu fyrsta flokks hóteli og úr herbergisglugga mínum blasir borgin við í allri sinni dýrð. Það er eins og vera kominn í 1001 nótt, húsin og hallirnar hvítar með vötnum og gosbrunnum. Við hófum daginn á að fara í morgunmat hér á hótelinu og drifum okkur svo í snari út til að grípa leigubíl til Dubai. Stelpurnar vildu ólmar komast í gull og demants markaðina. Við strákarnir ákváðum að fylgja með, enda margt að skoða á leiðinni. Gullið og demantarnir voru þó skildir eftir og meira bara skoðað og gengið um. Ég og Begga öryggiskennari röltum borgina á enda, fórum í siglingu og skoðuðum kryddmarkaði og efni. Enn og aftur, allt eins og 1001 nótt!

Pickup er eftir klst. En þá er lagt í hann til Singapore. 7 ½ klst flug bíður okkar og miðað við gamanið á okkur í nótt, verður lagst fljótlega í sætin með kodda og teppi. Það kítlar í magann af spenningi yfir því sem bíður okkar í Singapore.....allt ennþá óljóst........en pottþétt gaman!
Sturtan bíður mín og svo uniformið. Næstu skrif í nýrri heimsálfu og nýjum ævintýrum!

Kv,

Ingó

|