mánudagur, mars 20

Þegar ég var yngri...

Já, lá upp í rúmi í gærkvöldi og fékk þennan hryllilega hlaupasting (don´t ask why). Uppgötvaði þá að ég hefði ekki fengið hlaupasting síðan ég var krakki. Upp kom sú minning er ég var í íþróttum í barnaskóla í Svíþjóð og látin hlaupa einhvern óhressishring sem líklega hljómaði upp á 1km eða svo. Þar sem langhlaup var aldrei mín sterka grein og ég mikill astmasjúklingur og væskill, þá var loftið oft farið úr mér löngu áður en hlaupahringnum var lokið. Endaði þessu miklu maraþoni með andköfum, hlaupasting og ALLTAF seinastur í mark. Við tók svo endalaus leikur af fótbolta, en þar sem ég var svo lélegur í þeim leik (og reyndar öllum boltaleikjum) þá var ég valinn seinastur og settur einhversstaðar lengst í burtu frá boltanum svo að ég örugglega myndi ekki snerta hann! Já endalaus kvöl og pína í íþróttum alla mína barnaskólagöngu....

Út frá þessari kvala minningu sem ég hafði grafið djúpt í huga mér minntist ég þess að ég hefði verið varaformaður nemendaráðs. Afhverju ég var ekki hinn eini sanni formaður man ég ekki, en allavega fylgdi þessu mikil ábyrgð og ég hæsta ánægður með þessa stöðu. Vikulega fórum við á fund með kennurum til að ræða stöðu nemenda og skipuleggja keppnir og aðra atburði. Eitt skipti átti að reisa nýja byggingu á skólalóðinni og bæjarstjóri ásamt bæjarblaðinu voru viðstaddir. Þarna átti að skóflustunga að eiga sér stað og formaður nemendráðs átti að gera þessa stungu. Þar sem formaðurinn fannst ekki var ég beðinn um að gera þennan merkilega hlut og fá að vera á forsíðu bæjarblaðsins ásamt bæjarstjóra. En rétt í því er ég var kallaður upp til að baða mig í ljóma frægðarinnar skaut andsk. formaðurinn upp kolli og stal þrumunni minni. Ég þurfti vandræðilega að rölta tilbaka inn í áhorfendahópinn og horfa upp á mómentið mitt þjóta framhjá! Greinilega hefur þetta atvik verið mér mjög erfitt og þvi hafði ég eytt þessari minningu í allt að 15 ár!

Í framhaldi af þessari skemmtilegu minningu uppgötvaði ég að ég hefði verið fremur í í nördakantinum.......ég gjörsamlega var ömulegur í íþróttum, ég var í skólakórnum og svo náttlega nemendaráði og hafði mest gaman af smíðum, saumum og landafræði! Svo var ég skáti líka......... Ekki skánaði það svo í gaggó heldur.......
Án efa hefur ekki ófrýnilegri unglingur sést fyrir norðan Alpafjöll á þessum tíma. Á mínu 12 eða 13 ári var ég kominn með góðan skegghýjung á efri vörina. Þar sem ég var hvergi annarstaðar með hár í andlitinu var þetta frekar hallærislegt! Við mátti bæta að hárið á mér var byrjað að krullast og við blasti þetta skaðræðis rolluhár sem var með sinn eigin vilja, ég var með spangir á tönnum, eða góða brautarteina eins og vinur minn kallaði það og allir útlimir voru í óeðlilegri stærð miðað við restina af líkama mínum. Vegna lítils fjármagns heiman frá gekk ég í fötum keypt í verslunum á við Rúmfatalagerinn, en það skiptir kannski minna máli þar sem einstaklingurinn í fötunum var langt frá viðbjargandi!!!
Meira að segja gat Nalli ekki annað en jánkað við þeirri staðreynd að maðurinn hans hefði nú kannski ekki verið mesta bjúti á yngri árum, miðað við myndir sem hann hafði séð......

En það er ekki allt sem áður var og mikið vatn runnið til sjávar! Fljótlega rétt fyrir menntó tók hégóminn við að frátaldri hommaveikinni. Ekki er aftur snúið og ætli maður eyði ekki of miklum áhyggjum í útlitið sitt en góðu hófi gegnir. Og maður getur ekki annað en staldrað við og hugsað:

Ætli ég hafi verið meira raunveruleg persóna þá en núna.....???

|