fimmtudagur, ágúst 30

Blá blaðra og tennisspaði!

Ég stóð fyrir framan spegilinn inn á baðherbergi og virti fyrir mér andlit mitt. Allt í einu tók ég eftir því hve fullorðinn ég er orðinn í raun og veru. Þó svo að mér finnst eins og ég hafi verið 12 ára bara í fyrra, þá segir spegilmynd mín annað.

Hvenær liðu árin og við urðum stór???

Ég man þegar versta hræðsla mín var að fara í leikfimistíma í barnaskóla. Þegar áhyggjuefnið var hvort manni yrði boðið upp í vangadans á skólaballi. Ég man líka þegar peningar skiptu mig engu máli og þarfir mínar miðuðust bara við það sem mér var sett. Ég man þegar ég sagði alltaf satt og ilska heimsins náði bara til stráksins sem stal hjólinu mínu þegar ég var í 3 bekk. Ég man þegar ég suðaði um að fá að vaka til 10 á virkum degi og þegar skólinn var í raun skemmtilegur.
Í dag veit ég svo miklu meira en þá. Í dag veit ég miklu minna en eftir 25 ár. Hvað hef ég svo lært?

Jú ég veit að leikfimistímar eru enn jafn ömurlegir í dag og þeir voru þá. Það býður þér enginn í vangadans nema þú gerir það sjálfur. Peningar skipta öllu máli og þarfir manns miðast alltaf við það sem manni er sett. Meiri peningar, fleiri þarfir........Ég veit að sannleikurinn er ekki alltaf sagna bestur og ilska heimsins nær svo miklu lengra en bara einn hjólastuldur. Ég veit líka að geta sofnað fyrir 10 er æðislegt á virkum dögum og skólinn.....já skólinn er bara skemmtilegur ef maður gerir hann skemmtilegan.
Þetta er það sem ég hef lært í dag. Annað er það ekki. Ég er enn sá sami og þá, bara eldri, kannski aðeins vitrari en á enn svo margt ólært. Þess vegna trúi ég ekki spegilmynd minni. Maðurinn sem ég sé er ekki ég........heldur maðurinn sem ég orðinn........

Ég brosti framan í sjálfan mig, kláraði að bursta tennurnar, greiddi mér og lagaði bindishnútinn. Fór út í kuldann og hélt af stað í vinnu í morgunsárið. Fyndin pæling ekki satt..........?

|