föstudagur, júní 15

Fíflaskapur í háloftunum og fullorðinsárin komin til að vera!

Klukkan er einum og hálfum tíma gengin yfir miðnætti. Hafnarfjarðarbær kominn í svefn og ég nýsloppinn úr flugi. Lundúnaflugið í kvöld var með eindæmum skemmtilegt, enda ekki skrítið með frábæru fólki til að hlæja með. Ég og Steinunn önnur freyja hlógum okkur máttlaus allt flugið og létum öllum illum látum. Verst bara hvað við höfðum lítinn tíma til að vinna í öllu gamaninu ;) Við reittum af okkur brandarana, dönsuðum indíána dansa og sungun júróvisjón lög. Ég er ekki frá því að farþegunum hafi bara verið skemmt af öllum kjánaskapnum. Nýliðinn í hópnum var þó á báðum áttum hvort hún átti að taka þátt í gamaninu eða segja upp á staðnum!

Ég sit við borðstofuborðið mitt og er að virða fyrir mér nýju íbúðina okkar. Kærastinn liggur upp í rúmi, þreyttur og sofandi eftir langan vinnudag. Fyrst núna er ég byrjaður að finna fyrir smjörþefnum að þetta heimili er mitt. Það er mitt til að eiga og breyta, mitt sem ég keypti fyrir peningana sem ég átti. Já, ætli maður sé ekki loks orðinn fullorðinn, þó allavega á góðri leið að verða það :) Á þriðjudaginn eru liðin 8 ár síðan við Nalli hófum ferð okkar saman. Þó mig dreymdi oft um að eignast heimili saman, þá var það fjarlægur draumur og kannski ekki raunsær á þeim tíma. í dag er sagan önnur og hugsað tilbaka eru 8 ár langur tími af ungri mannsævi. Samt virðist allt hafa bara gerst í gær........;)

|