miðvikudagur, október 4

Getur róin bjargað mér frá drukknun???

Átti þessa yndislegu kvöldstund með góðri vinkonu í gærkveldi. Hentumst í flýti eftir skóla í smá mat og gott spjall um lífið og tilveruna. Það er svo gaman og gott að geta spáð og spekulerað um heiminn, hvað er rétt og rangt, drauma og þrár, fortíðina, nútíðina og framtíðina, allt við góða vini sem kasta fram spurningum og svörum í sömu andrá fyrir mann. Við töluðum um, pólitík, efnahagskerfið, námið okkar og vinnu. Við töluðum líka um andlega hluti, drauma, lífið, sátt og vonbrigði og svo ástina.
Ég velti fyrir mér hversu skjótt lífið getur breyst og hve lítilfenglegt allt dramað okkar er í raun og veru er ég leit á vinkonu mína komin um 6 mánuði á leið.
Inn í maga hennar var ný mannvera orðin til. Stúlkan, dóttir hennar á leið í þennan geggjaða heim eftir fáeina mánuði. Já......allt í einu leið mér svo litlum og gjörsamlega bit á hversu lítið maður veit í raun og veru....um lífið og tilveruna, um sjálfan sig.....
Ég öfundaði stöllu mína, ekki bara vegna fæðingu tilvonandi dóttur sinnar, heldur einnig þessa ró sem komin var yfir andlit hennar. Og þegar hún talaði um lífið sem beið hennar, móðurhlutverkið, ljómuðu augu hennar af tilhlökkun og sátt við hvar hún væri í lífinu.
Hálf skömmustulega datt ég inn í meðvirknina sem alltaf stendur þétt við mann og fannst ég ekki hafa borið mikið úr býtum. Það leið þó ekki langt þar til sú hugsun var grafin og gleymd...........

Var vakinn upp úr góðum draum af skólasystur minni að minna mig á tíma kl 10 í morgun. Merkilegt en ekki óvenjulegt var ég búinn að gleyma þessum blessaðins tíma og rauk úr rúminu með miklum látum til reyna ná sem mestu af kennslustundinni. Brunaði af stað vestur í bæ og hrundi inn í skólastofuna með miklum látum. Það tók ekki langan tíma þangað til kennarinn tilkynnti mér það að ég fengi ekki mætingu í þennan tíma þar sem ég var orðinn of seinn. Mér gramdist athugasemd hennar og kveikti í hárinu á henni í huganum. Samt sat ég út allan tímann, með fjarvist í kladdanum........

Ég vonast til þess að geta komist inn í tónlistarskólann sem ég sótti um. Reyndar er ég kominn inn en vegna tæknilegra atriða þarf að fá leyfi frá bæjarfélaginu mínu til að geta stundað tónlistarnám í Reykjavík. Það er samt mikil tilhlökkum til námsins og vonandi að ég geti stundað það af krafti. Enda ekki annað hægt þegar um er að ræða eitthvað sem áhugasviðið nær yfir. En stóra spurningin hangir þó enn yfir hausnum á mér......Hvort ég sé að vaða of langt út í sjóinn og með of miklum asa.................???

|