fimmtudagur, febrúar 22

Viskubrunnur eða viskustykki???

Ég hef lært það á förnum vegi að lífið er víst það sem við gerum úr því.
Er búinn að eiga í löngu samtali við vinkonu mína eins og svo oft áður um lífið og tilveruna og það sem viðkemur okkur sem mest um þessar mundir.
Þær hafa verið ófáar stundirnar sem viskukornin hafa ollið út úr munni manns, í sömu andrá gæti maður verið að tala til sjálfs síns........

Afhverju er maður betri í því að veita öðrum góð ráð, en fer svo ekki eftir því sjálfur?

Mér er hugsað til þess hve mikið líf mitt hefur batnað til hins betra með því einungis að veita öðrum ráð. Á þann hátt hefur mér tekist að koma sjálfum mér á óvart og oft þurft að horfast í augu við hið óumflýjanlega og kannski mín eigin vandamál. Já, hver er sinnar gæfu smiður, en hvað ef maður þarf að vera annarra manna smiður til að geta haft áhrif á sína eigin?

Mér er hugsað til þeirra visku sem mér hefur hlotnast. Að hver og einn ber ábyrgð á sínum eigin gjörðum og eigin tilfinningum. Og að það er ekki í manns eigin verkahring að breyta eða stýra öðrum. Ef hver og einn gæti séð sjálfan sig aðeins í betra ljósi og væri ekki svona upptekinn við að einblína á aðra, værum við kannski kominn aðeins lengra í lífsþróuninni.......
Já, okkar eigin viska kemur oft að okkur að aftan og læðist að manni.....ekki skrýtið þótt við séum lengi að læra og tökum ekki eftir þyrninum í okkar eigin auga!

|