fimmtudagur, janúar 12

Og eftir sitja þankar gærdagsins...

Á fimmta degi vikunar dríf ég mig í vinnu eins og vanalega. Úti snjóar og ég hugsa með mér hversu friðsælt það getur verið, úti er grafarþögn, þétt snjókoman bælir allt hljóð. Í útvarpinu er morgunþáttur bylgjunar, já atburðir vikunar enn til umræðu......

Í gær tóku nemendafélög háskólana sig saman og lokuðu vefsíðum sínum part af degi. Þetta var gert í mótmælaskyni til að taka afstöðu gegn fréttamennsku DV. Sett var upp heimasíða, slóð þar sem þjóðin gat skráð niður nafn sitt á lista og mótmælt þessum vinnubrögðum. Hálftíma eftir að slóðin var gerð virk, skráði ég mig. Ég var númer 91 á þessum lista........seinustu tölur birtar í kvöld voru um 30.0000 manns!
Góð vinkona mín sendi mér slóð þar sem einn ágætis maður skrifaði niður þanka sína á síðu eins þessa sem þið skoðið nú. Dálkahöfundur var fyrrverandi starfsmaður, blaðamaður á hinu umtalaða DV og hann lýsti yfir áhyggjum sínum af vinum sínum er enn störfuðu hjá þessu blaði. Hann minnist til þess er hann sjálfur skrifaði greinar af þessu tagi, æsifréttamennsku, eins og hann kallar, hugsjón þar sem markmiðið var að ná fram sannleikanum, sama hvað.

"Hugmyndafræði sem gengur út á að finna sannleikan og gera honum hærra undir höfði en tilfinningum fólks".

Svona ritar maðurinn orðrétt. Hann gerir grein fyrir ótta sínum sem hann hafði haft, þar sem það hlaut að koma að því eitthvað svona lagað gerðist...... "Þarna var einfaldlega gengið eins langt og hægt var innan glermúrs siðareglna blaðsins."
Dálkurinn heldur áfram.........

Viðbrögð bárust á síðu þessa ágæta manns. Flest þeirra neikvæð, neikvæð í garð dagblaðsins, neikvæð í garð þessa manns og félaga hans, neikvæð í garð starfsfólks DV.
Reiði þjóðrinnar er skiljanleg........En eigum við að falla í sama hlutverk og gerendur í þessu máli? Hvar kemur það fram í okkar hlutverki að dæma? Einmitt sú gjörð var það sem kom manninunum er greinin fjallaði um, í gröfina. Er það mín skoðun að ekki skal það sama leggja yfir alla. Og það á við í þessu tilviki einnig....... Þótt sumir ganga í rauðu, þá þarf það ekki að vera þeirra uppáhalds litur, ekki satt?
Hví missum við oft sjónar af því er mestu máli skiptir þegar reiði okkar blossar upp? Hví beitum við kröftum okkar í það einungis að dæma og benda á aðra, þegar uppbygging og forvarnir ættu frekar að eiga sér stað? Hlúa að þeim sem særður urðu og líta tilbaka á hvað fór úrskeiðis.......
Maður lét lífi vegna ummæla. Því er ekki breytt. Fjölskyda hans situr eftir með sorg í hjarta......Réttlæti var ekki náð í þessu máli....

Í kvöld velti ég því fyrir mér hver á í sök í raun og veru. Allir benda á DV, ritsjórn og greinahöfund. Nú spyr ég: Er það ekki íslenska þjóðin sem er að hluta til sek í þessu máli? Eru það ekki við sem þyrstum í slúður, kaupum dagblöð og tímarit af þessu tagi og smjöttum svo af mistökum annarra?
"Já, svo lengi sem það er ekki mitt andlit sem sést á forsíðum fréttablaðana, þá get ég hlegið í laumi!" Ég einnig dæmdi.....
Margar hugsanir fóru í gegnum hug minn og ég átti erfitt með skilja það til fullnustu sem hafði átt sér stað fyrr í vikunni. Þó fann ég fyrir mikilli skömm. Ég skammaðist mín fyrir að hafa verið einn af þeim er tóku upp blaðið og jafnvel á einhverjum tímapunkti lesið það. Já mín hlutskipti í þessu máli voru þau að sýna samþykki mitt á greinaskriftum slúðurblaðana með lestri mínum. Sumir jafnvel keyptu þau.............

Maður lét lífið og þjóðin fyllist reiði og setur sig upp á pall. "Þessir blaðamenn skulu sko sýna ábyrgð! Mega þeir stikna í helv.!" Já svona heyrir maður útundan sér, svona er Ísland í dag. En ekki er þetta í fyrsta skipti sem blaðið DV gerir eitthvað svona slíkt. Ítrekað hefur þjóðin kvartað yfir vinnubrögðum er á sér stað! Ítrekað höfum við sýnt andúð okkar á þeim mannorðsbrotum er framin hafa verið! Ítrekað höfum við sem á móti þessu eru, snúið hausnum í hina áttina! Já það var ekki okkar að breyta rétt þá......... Maður lét lífið svo að samlandar gæti borið viti fyrir þeim sem ekki gátu það......börnin á DV voru ekki stöðvuð í tæka tíð.........

Ég einnig ritaði niður svar mitt við þessum þönkum hins áhyggjufulla blaðamanns. Þau voru eitthvað í þessa átt:

Ég vona að þú komir þessu á framfæri til vina þinna sem enn vinna hjá DV. Afsökunarbeiðni er oft góð byrjun. Restin kemur svo á sjálfum sér....Þó svo að ritsjóri og eigendur hafa það ekki í sér að taka ábyrgð fyrir gjörðum sínum, þá finnst mér að aðrir starfsmenn geta gert það fyrir hönd blaðsins. Það væri góð byrjun ef starfsmenn DV gætu komist út úr þessu með smá sómatilfinningu, þó svo að ritsjórar eða eigendur gera það ekki....Sýnið manninum og fjölskyldu hans þá virðingu að votta samúð ykkar og biðjast fyrigefningar á þeim atburðum er áttu sér stað.

Já.......Sýnum öll samúð og virðingu og biðjumst fyrigefningar, breytum rétt í þetta skipti!

|